Tjarnarskóli
Stofnun skólans, þróun hans og áherslur
Stofnun og húsnæðismál
Tjarnarskóli var stofnaður árið 1985 af kennurunum Margréti Theodórsdóttur og Maríu Solveigu Héðinsdóttur. Þær voru samstarfskonur í Gagnfræðaskólanum í Mosfellssveit þrjú árin á undan og hófu undirbúning að stofnun skólans í október 1984. Starfsleyfið fékkst í júní 1985. Skólinn var fyrstu tvö árin í Miðbæjarskólanum við Fríkirkjuveg en fluttist síðan haustið 1987 inn í gamla Búnaðarfélagshúsið við Tjörnina að Lækjargötu 14b og hefur verið starfræktur þar síðan. Skólinn er rekinn sem einkahlutafélag. Margrét og María ráku skólann saman til ársins 1999 en þá lét María af störfum. Reksturinn hefur síðan verið í höndum Margrétar. Skólinn var frá upphafi með 8., 9. og 10. bekk en í nokkur ár bauðst 7. bekkingum að vera í samkennslu með 8. bekkingum. Því fyrirkomulagi lauk frá og með haustinu 2014.
Í Miðbæjarskólanum hafði skólinn afnot af þremur kennslustofum, íþróttasal, smíðastofu, eldhúsi og handavinnustofu. Á þeim tíma hýsti Miðbæjarskólinn einnig starfsemi Námsflokka Reykjavíkur og þrír elstu árgangar Vesturbæjarskóla voru í suðurenda hússins. Á sumrin var auk þess rekið farfuglaheimili í húsakynnum Miðbæjarskólans. Eftir flutningana haustið 1987 sköpuðust þær aðstæður að skólinn gat haft meginstarfsemi sína út af fyrir sig. Tilhögun sérgreinanna; íþrótta, smíða og handavinnu hélt sínum sessi í Miðbæjarskólanum eftir sem áður. Sundkennsla hefur ávallt farið fram í Sundhöll Reykjavíkur.
Þetta fyrirkomulag hélst þangað til Menntasvið Reykjavíkur (nú Skóla- og frístundasvið) flutti í Miðbæjarskólann árið 2005. Þá var öllum vistarverum þar breytt í funda- og skrifstofuaðstöðu, einnig íþróttasalnum. Í kjölfarið þurfti að finna aðstöðu fyrir íþróttir með því að leigja sali, lengst hjá Knattspyrnufélaginu Val við Hlíðarenda. Þessu fylgdi ferðakostnaður sem var talsvert íþyngjandi fyrir rekstur skólans og erfitt var um vik að finna matreiðslu, smíðum og textílmennt stað og kennsla í þessum greinum lagðist af um nokkurra ára bil en myndlist var áfram inni á stundaskrá í skólahúsinu að Lækjargötu 14b. Haustið 2012 flutti Kvennaskólinn í Reykjavík starfsemi sína í Miðbæjarskólahúsið og þá opnuðust aftur möguleikar fyrir íþróttakennslu og haustið 2013 var gerður samningur um afnot af heimilsfræðistofu í Grandaskóla í Reykjavík.
Hin síðari ár hefur það fyrirkomulag orðið að öll meginstarfsemi hefur haldið áfram að vera að Lækjargötu 14b. Gert var samkomulag um nýtingu smíðastofu í Suðurhlíðaskóla, leirlist og myndlist hafa verið kenndar í húsnæði Háskóla Íslands í Skipholti. Skólaárin 2018 – 2019 var gerður samningur við Tækniskóla Íslands um valgreinar fyrir 10. bekkingana okkar. Um er að ræða 3 lotur á vetri sem skila nemendum 2 einingum á framhaldsskólastigi. Nemendur voru mjög ánægðir með þennan valkost sem hefur breikkað námsframboðið og víkkað sjóndeildarhringinn. Því var ákveðið að bjóða þennan valkost aftur skólaárið 2019 – 2020. Þessu til viðbótar var samið við Tækniskólann um að bjóða 8. og 9. bekkingum námskeið í hljóðvinnslu, myndvinnslu og hönnun fyrir þrívíddarprentara, svo nefnt Fablab-námskeið á skólaárið 2019 – 2020. Þar sem vel hefur tekist til er fyrirsjáanlegt að þetta fyrirkomulag verði áfram.
Stofnun skólans vakti athygli
Mikil fjölmiðlaumfjöllun átti sér stað í kjölfar stofnunar skólans, aðallega neikvæð; á milli sextíu og sjötíu blaðagreinar voru skrifaðar. Flestum sem tjáðu sig opinberlega þótti neikvætt skref að svo nefndur einkaskóli væri stofnaður í Reykjavík. Helstu rökin voru þau að rekstrafyrirkomulagið, sem hafði í för með sér innheimtu skólagjalda, hlyti að ýta undir mismunun, skólinn yrði fyrst og fremst fyrir ríkra manna börn. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og viðhorfsbreyting átt sér stað í jákvæða átt. Skólinn starfar nú í sátt við ytra skólaumhverfi og raddir frá upphafi skólastarfsins heyrast varla lengur. Jákvætt umtal og þakklæti nemenda og foreldra þeirra hefur gefið byr undir báða vængi í gegnum tíðina.
Starfsemi og áherslur
Allt frá stofnun skólans hefur starfið tekið umtalsverðum breytingum, bæði hvað varðar ytri ramma (grunnskólalög, reglugerðir… ) en ekki síður innri skólaþróun. Leiðarljósið að hafa einstaklinginn í fyrirrúmi hefur ávallt verið mjög sýnilegt. Kennarahópurinn á hverjum tíma hefur sett sinn svip á starfið en það hefur verið mikil gæfa að góðir starfsmenn hafa leitt skólastarfið. Mörg metnaðarfull verkefni hafa litið dagsins ljós. Hin síðari ár hafa mörg þróunarverkefni verið unnin eins og greint hefur verið frá í sjálfsmatsskýrslum sem hægt er að nálgast á heimasíðu skólans www.tjarnarskoli.is .
Í Tjarnarskóla er mikil áhersla lögð á hvetjandi námsumhverfi og mannrækt. Kappkostað er við að hvetja og styrkja nemendur á uppbyggilegan hátt og stuðla að vellíðan þeirra í leik og starfi. Einnig er lögð rækt við að byggja á styrkleika hvers og eins og mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur hverju sinni. Nemendur læra öguð vinnubrögð, samvinnu og samábyrgð og áhersla er lögð á góða hegðun, kurteisi og háttvísi. Áhersla er lögð á að styrkja nemendur í að taka góðar ákvarðanir. Gott samstarf, á milli allra þeirra sem koma að menntun og uppeldi nemenda skólans, er afar mikilvægt. Mikil áhersla er lögð á gott upplýsingastreymi til foreldra og nemenda um sem flesta þætti er lúta að velferð nemenda og þátttöku í skólastarfinu.
Einkunnarorð okkar eru: „Allir eru einstakir“ og „Lítill skóli með stórt hjarta“.