S: 5624020  /  5516820   Lækjargata 14b, 101 Reykjavík

Foreldrafélag – foreldrasamstarf

Foreldrar

Bekkjarfulltrúar og foreldraráð Tjarnarskóla veturinn 2023 – 2024 

Þar sem nemendur í skólanum eru einungis á milli 50 og 60 eru bekkjarfulltrúar jafnframt fulltrúar í foreldraráði.

Vignir Örn Sigþórsson

Ólöf Helga Jakobsdóttir

Magnús Sævar Magnússon

Bergljót Arnalds

Anna Sif Jónsdóttir

Óskar Freyr Pétursson

Stefna skólans í foreldrasamstarfi

Foreldrasamstarf er afar mikilvægur þáttur í skólastarfinu. Í Tjarnarskóla segjum við gjarnan að foreldrahópurinn sé eins og ,,Tólfan“ með íslensku landsliðunum. Foreldrar eru hvetjandi og leggja ómælt lið með margvíslegum hætti.  Það er eftirsóknarvert að fá foreldra á sem fjölbreyttastan hátt inn í skólastarfið. Góð kynni, samhugur og samvera með nemendum og starfsfólki skilar sér í hærra ánægjustigi, meiri öryggistilfinningu og betri samskiptum. 

Á hverju hausti eru haldnir haustfundir með foreldrum. Á þeim fundum tilnefna foreldrar tvo fulltrúa úr hverjum bekk (samtals 6 fulltrúa) í stjórn foreldrafélags. Þar sem skólinn er fámennur eru sömu fulltrúar í bekkjarráði og í stjórn foreldrafélagsins. Skólastjóri kallar síðan hópinn saman og hópurinn kemur sér saman um verkefni vetrarins.

Lög foreldrafélagsins í endurskoðun

Móðir í skólanum vann að tillögum að nýjum lögum fyrir foreldrafélagið okkar fyrir nokkrum árum. Þeim hefur ekki verið breytt formlega þegar þessar línur eru skráðar en skólastjóri mun kynna málið fyrir nýju foreldraráði skólaárið 2023 – 2024. Svo ánægjulega vill til að umrædd móðir á aftur ungling í skólanum og er í foreldraráðinu í vetur. Væntanlega getur dregið til tíðinda.

Verkefnaskrá – viðburðir

Á fyrstu áratugum Tjarnarskóla var aðkoma foreldrafélagsins sem slíks tiltölulega afmörkuð. Á síðari árum hefur þátttaka foreldra aukist til muna. Í því felst að á hverju hausti er kosið í foreldraráð. Skólastjóri kallar fulltrúa ráðsins saman og fulltrúar skipta með sér verkum og fundar um verkefni vetrarins. Sú hefð hefur skapast að foreldraráðið skipuleggur mjög veglegan viðburð síðasta fimmtudag í nóvember ár hvert. Þá koma foreldrar, nemendur og jafnvel fleiri fjölskyldumeðlimir saman í skólanum ásamt kennurum skólans og eiga saman ljúfa stund. Þá eru jólaföndurverkefni á dagskrá, jafnvel tónlistarflutningur. Þá nýta 10. bekkingar gjarnan tækifærið og bjóða upp á veitingar á vægu verði en afrakstur rennur í ferðasjóð nemenda.

Foreldrafélagið hefur komið með ýmsar góðar ábendingar í skólastarfið. Foreldrar hafa gjarnan komið sem gestafyrirlesarar og segja frá starfsvettvangi sínum eða áhugamálum. Foreldrar hafa komið með góðar ábendingar/tillögur í þá veru að krydda skólastarfið. Nemendur hafa einnig leitað til foreldra fyrir árshátíð skólans. Þá er óskað eftir liðsinni við að finna gjafir og viðurkenningar til þess að afhenda við þetta hátíðlega tækifæri. Foreldrar hafa lagt gott lið í þessum efnum.

Mikil þátttökuaukning foreldra síðast liðin ár ef covidárin eru undanskilin

Aðkoma foreldra að skólastarfinu hefur eflst undanfarin ár ef covidárin eru undanskilin. Öflugir foreldrar hafa verið í foreldraráðinu og staðið fyrir nýjungum og verið virkir þátttakendur í talsvert meira mæli. Við erum afar sátt við hversu hátt hlutfall foreldra mætir á viðburði þar sem þátttöku þeirra er óskað. Hér má nefna fundi, opna fundi skólaráðsins, fyrirlestra, undirbúning fyrir ,,ungbarnadaga“ í 10. bekk, vorgrill í Mæðragarðinum og síðast en ekki síst afar góða samvinnu við að taka á móti dönskum gestum sem hafa komið til okkar árlega í mörg ár (nema covidárin). Þá bjóða Tjarnarskólaforeldrar dönskum ungmennum gistingu og hafa sýnt mikla gestrisni þá viku sem Danirnir dvelja á Íslandi. Foreldrar hafa einnig staðið fyrir viðburðum eins og keiluferðum, pantað vöffluvagninn og ísbílinn, haft spilakvöld, farið í Minigarðinn og fleira í þeim dúr. 

Mikil samvinna í tengslum við Evrópuverkefni og móttöku erlendra gesta

Við höfum tekið þátt í þremur Evrópuverkefnum þar sem nemendur og kennarar Tjarnarskóla hafa verið í tengslum við nemendur og kennara í fimm öðrum Evrópulöndum og höfum tekið upp samvinnu við danska skólann Roskilde Lille Skole, eins og komið hefur fram. Kennarahópur frá skólanum kom í heimsókn til okkar vorið 2015 og þá voru lögð drög að heimsókn Dananna vorið 2016. Við tókum síðan á móti 23 nemendum, þremur kennurum og tveimur foreldrum frá Danmörku í apríl 2016. Í mars 2017 fóru 10. bekkingarnir okkar í heimsókn til Danmerkur og síðan tókum við á móti 23 dönskum unglingum og fimm fullorðnum í apríl 2017. Haustið tókum við á móti 25 nemendum og þremur fararstjórum til okkar og 10. bekkurinn endurgalt heimsóknina með því að fara til Roskilde í maí 2019. Stefnt var á að sami háttur yrði á skólaárið 19 – 20. Við tókum á móti dönskum hóp í október en því miður kom heimsfaraldur í veg fyrir að hægt væri að endurgjalda heimsókn vorið 2020. Ekkert varð heldur úr heimsóknum Danann á síðasta skólaári vegna aðstæðna hjá þeim ytra. Okkar nemendur fóru samt í ferð til Danmerkur sem var skipulögð með öðru sniði. Tveir foreldrar fóru með í þá ferð. 

Þátttaka í mótun skólastarfsins og aðkoma foreldra að fleiri þáttum í skólastarfinu

Hér má nefna þátttöku í ,,opnum fundum“ sem skólaráðið hefur staðið fyrir á hverju ári undanfarin ár. Öflug hugmyndavinna hefur verið unnin og ýmsu góðu komið til leiðar í kjölfarið. Einnig má nefna að foreldrar hafa lagt lið við að koma nemendum í heimsóknir á vinnustaði og verið virkir við að koma með hugmyndir í skólaráðinu.  

Undirbúningur og fjáröflun fyrir útskriftarferð og útskriftarhátíð 10. bekkinga

Hér hafa foreldrar komið sterkir inn og lagt lið í samvinnuverkefni nemenda, foreldra og starfsmanna.