S: 5624020  /  5516820   Lækjargata 14b, 101 Reykjavík

Tjarnarskóli

Tjarnarskóli og Samtök sjálfstæðra skóla

Hugleiðingar á 10 ára afmæli samtakanna 2015

Tjarnarskóli var stofnaður árið 1985 af undirritaðri, Margréti Theodórsdóttur, og Maríu Solveigu Héðinsdóttur. Við höfðum verið samstarfskonur í Gagnfræðaskólanum í Mosfellssveit þrjú árin á undan og hófum undirbúning að stofnun skólans í október 1984. Starfsleyfið fékkst í júní 1985. Yfirstandandi skólaár er því það þrítugasta í röðinni.

Stofnun skólans vakti athygli. Mikil fjölmiðlaumfjöllun átti sér stað í kjölfar stofnunar skólans, aðallega neikvæð. Milli sextíu og sjötíu blaðagreinar voru skrifaðar. Flestum þótti neikvætt skref að svo nefndur einkaskóli væri stofnaður í Reykjavík. Helstu rökin voru þau að rekstrafyrirkomulagið, sem hafði í för með sér innheimtu skólagjalda, hlyti að ýta undir mismunun, skólinn yrði fyrst og fremst fyrir ríkra manna börn. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og viðhorfsbreyting átt sér stað í jákvæða átt. Skólinn starfar nú í sátt við ytra skólaumhverfi og raddir frá upphafi skólastarfsins heyrast varla lengur.

Fjárhagsgrunnur sjálfstæðra skóla, breyttar forsendur og áherslur

Hlutfall sjálfstæðra grunnskóla er afar lágt í íslenska skólasamfélaginu þar sem innan við 2% grunnskólanema stunda nám í þessum skólum. Í samanburði við nágrannalöndin þá er hlutfall sjálfstæðra skóla á Íslandi miklu lægra. Nú starfa 12 sjálfstætt reknir grunnskólar í 5 sveitarfélögum; Reykjavík, Garðabæ, Kópavogi og Hafnarfirði auk þess sem nýtt skref var stigið fyrir tveim árum þegar Hjallastefnan tók að sér rekstur eins af sveitarfélagsskólunum, Tálknafjarðarskóla. Rekstraraðilar þessara skóla eru nú sjö. 

Frá því Tjarnarskóli var stofnaður hafa einungis fimm nýir rekstraraðilar stigið það skref að stofna nýjan grunnskóla; Miðskólann, sem starfar ekki lengur, Alþjóðaskólann í Garðabæ, Waldorfskólana, Hjallastefnuskólana og á síðasta ári var stofnaður nýr alþjóðlegur grunnskóli sem er starfræktur í Reykjavík. 

Rekstrarumhverfið var óhemju erfitt fram til ársins 2007 þegar ný lög voru sett um framlag sveitarfélaga til þessara skóla. Þá varð umtalsverð breyting til batnaðar. Þrátt fyrir það hefur verið óumflýjanlegt að innheimta einnig skólagjöld. Á árum áður var hlutfall skólagjaldanna allt að 40% rekstrartekna Tjarnarskóla, það voru erfiðir rekstrartímar. Það sama gildir um hina sjálfstæðu skólana sem voru reknir um þær mundir. Tiltölulega há skólagjöld þá höfðu einnig óumflýjanlega neikvæð áhrif á markaðsstöðu skólanna. Þessir erfiðleikar urðu til þess að í nokkrum tilvikum þurfti Reykjavíkurborg að grípa til björgunaraðgerða fyrir skólana, þar á meðal Tjarnarskóla. Sá skóli sem stóð verst að vígi var sá skóli sem hafði flesta nemendur, Ísaksskóli, því þar margfölduðust erfiðleikarnir í hlutfalli við fjölda nemenda í skólanum. Sá skóli er því skýrasta dæmið um erfiðleika í rekstri í gegnum tíðina en 1991 voru 435 nemendur við Ísaksskóla. Auk þess má nefna að í mörg rekstrarár var rekstrarframlag til skólanna sem þá störfuðu mjög mismunandi og lítið samræmi í því hvert framlagið var á hvern nemanda í skólunum. Þegar Tjarnarskóli var stofnaður árið 1985 fengu þrír skólar framlög frá íslenska ríkinu; Skóli Ísaks Jónssonar, Landakotsskóli og Suðurhlíðaskóli.

Sem dæmi um mismunandi styrki þá var Tjarnarskóli búinn að starfa í sex ár þegar hann fékk fyrsta rekstrarstyrkinn frá Reykjavíkurborg, upp á 350 þúsund krónur árið 1991. Það ár fékk Ísaksskóli 400 þúsund króna styrk, Landakot 1100 þúsund og Suðurhlíðaskóli 230 þúsund. Framlögin hafa auk þess verið á ýmsa lund, sumir skólar hafa fengið byggingastyrki í gegnum tíðina. Einnig eru dæmi um opinbert framlag til þess að koma til móts við kostnað vegna lóðaframkvæmda og einn skóli hefur fengið byggingarlóð. Tjarnarskóli hefur fengið styrk í því formi að greiða ekki leigu lengst af fyrir afnot af skólahúsnæðinu en hefur staðið straum af daglegu viðhaldi eins og það er nefnt.  Breyting varð á þessu síðla árs 2013 í þá veru að skólinn greiðir nú leigu af skólahúsnæðinu. Þessu til viðbótar má nefna að nemendur í sjálfstæðu grunnskólunum nutu ekki framlags í formi greiðslu fyrir sérkennslu fyrr en hérna megin við árþúsundið svo undarlega sem það hljómar núna. 

Fyrsta tilraun til þess að búa til einhvers konar viðmiðanir um styrk til sjálfstæðu skólana voru gerðar vorið 1992 hjá Reykjavíkurborg en fram til þess tíma var stuðningur ekki byggður á fastmótaðri stefnu eða samræmdum reglum. Þessi tilraun fólst í því að stofnuð var nefnd á vegum Skólamálaráðs undir stjórn Árna Sigfússonar. Þessari nefnd var falið að koma með tillögur um viðmiðanir um rekstrarstyrki til fjögurra sjálfstæðra skóla sem þá voru starfandi svo að tryggja mætti að þeir sætu við sama borð. Tillögur nefndarinnar fólu m.a. í sér að rekstrarstyrkur skyldi vera byggður á nemendafjölda (í fyrsta skipti) og vera að jafnaði ekki lægri en 20% af meðaltali árlegs rekstrarkosnaðar á hvern nemanda í skyldunámi í grunnskólum borgarinnar en þá greiddi Reykjavíkurborg ekki laun til kennara, heldur ríkið sem hafði mjög ólík viðmið um rekstrarstyrki til sjálfstæðu skólanna á fjárlögum. 

Á þeim ríflega tuttugu árum sem liðin eru frá þessari fyrstu tilraun hefur fjárframlag ríkis og sveitarfélaga til reksturs sjálfstæðra skóla aukist,  í nokkrum skrefum þó. Eins og kunnugt er þá fluttist rekstur grunnskólanna til sveitarfélaganna árið 1996. Stærsta skrefið varð með breytingu á grunnskólalögum sem tóku gildi 2007, eins og fram hefur komið, þegar sjálfstæðu skólunum var tryggt 75% framlagið sem styrkti fjárhagsgrunn skólanna umtalsvert. Það framlag er miðað við meðaltalskostnað hvers grunnskólanemanda sem Hagstofa Íslands reiknar út á hverju ári. Hver sjálfstætt rekinn grunnskóli fær sem nemur 75% af þeirri upphæð frá því sveitarfélagi sem skólinn er starfræktur í. 

Allt stjórnskipunarlegt umhverfi skólanna hefur breyst mikið. Lög og reglugerðir um stofnun sjálfstæðra skóla, klausur um eftirlit og skyldur skólanna eru nú til staðar, réttindi nemenda í sjálfstæðu skólunum eru orðin sambærilegri við opinberu skólanna en áður. Því má segja að formleg staða skólanna í skólakerfinu sé með allt öðrum og betri hætti en þegar Tjarnarskóli var stofnaður árið 1985. Þá var einungis ein málsgrein í grunnskólalögum um starfrækslu einkaskóla á grunnskólastigi.

Tjarnarskóli og SSSK – sameiginleg vegferð til góðs 

Árið 2005 voru Samtök sjálfstæðra skóla stofnuð undir styrkri forystu Margrétar Pálu Ólafsdóttur. Nú eru um 50 sjálfstæðir leik- og grunnskólarar aðilar að samtökunum. Flestir sjálfstæðir skólar eru auk þess aðilar að Samtökum verslunar og þjónustu í Borgartúni en þar hafa SSSK aðsetur fyrir starfsemi sína.

Það var afar jákvætt skref fyrir sjálfstæða leik- og grunnskóla þegar samtökin voru stofnuð.  Tilurð Samtakanna breytti afar miklu fyrir okkur, bæði sem stjórnendur skóla og rekstraraðilar. Ég hafði verið í skólarekstri í tuttugu ár þegar kom að stofnun SSSK . Við þá breytingu varð tilveran allt önnur; í senn urðu samtökin bakhjarl og hreyfiafl í besta skilningi þess orðs. Það var mér sannkölluð ánægja að sitja í stjórn SSSK fyrstu sjö  starfsár samtakanna.   Mikil samhugur og vilji til að hafa áhrif á að styrkja stöðu sjálfstætt rekinna skóla hefur einkennt starfið, allt frá stofnun og mörgum afar brýnum  málum verið komið áleiðis. Sýnileiki og fagmennska hefur verið í fararbroddi og orkan sem hefur leyst úr læðingi hefur verið áþreifanleg. Ég vænti þess að samtakamáttur SSSK færi nemendum okkar og starfsmönnum fleiri sigra á vettvangi þess rekstrarumhverfis sem við vinnum í . Um leið þakka ég öllu því frábæra fólki í stjórnum SSSK, rekstraraðilum og félagsmönnum öllum fyrir afar gott framlag til þess að auka velferð allra SSSK- skólanna.  Ekki má gleyma ýmsum viðburðum á vegum SSSK  sem hafa verið margir og sérstaklega ánægjulegir. 

Nú, tíu árum eftir stofnun Samtaka sjálfstæðra skóla eru mörg verkefni í farvatninu. Enn heldur baráttan áfram. Samtakamátturinn hefur sýnt og sannað að við sem rekum stjálfstætt starfandi skóla stöndum sterkari saman en sem stakir rekstraraðilar. Ég hlakka til starfsins  framundan og veit að fleiri sigrar eru á næsta leiti. Á tímamótum er afar ánægjulegt að rifja upp samferðina síðast liðin tíu ár. Fyrir þá samferð er ég afar þakklát.

Húrra fyrir SSSK! 

Margrét Theodórsdóttir