S: 5624020  /  5516820   Lækjargata 14b, 101 Reykjavík

Hagnýtar upplýsingar um skólahald

Hagnýtar upplýsingar

Skrifstofa skólans er opin að öllu jöfnu frá klukkan 8.30 – 16.00. Ritari skólans er Kristín Rós Egilsdóttir.   Langoftast er auðvelt að ná sambandi við starfsmenn símleiðis en einnig er hægt að lesa skilaboð inn á símsvara og við bregðumst við erindinu við fyrsta tækifæri. Tölvupóstar  eru einnig óspart notaðir auk þess sem samskiptavefurinn Námfús er notaður í sumum tilfellum. Foreldrar og nemendur hafa aðgangsorð inn á vefinn. Stundum notum við smáskilaboðasendingar.

Skólinn er að öllu jöfnu opnaður  kl. 7.45, í síðasta lagi klukkan 8.00 og er opinn að öllu jöfnu til kl. 16.00. 

Heimilisfang skólans er:  Lækjargata 14b, 101 Reykjavík

Símanúmer eru: 5624020 og 5516820 og 8945820/8916899.

Netfang skólans er tjarnarskoli@tjarnarskoli.is 

Heimasíða skólans er www.tjarnarskoli.is 

Íþróttakennsla fer fram í íþróttahúsi Kvennaskólans í Reykjavík við Fríkirkjuveg.

Sundkennsla fer fram í Sundhöll Reykjavíkur.

Leirlist og myndlist hafa verið kenndar í húsakynnum Háskóla Íslands við Skipholt.

Tónlistarvalgrein er kennd í húsnæði Borgarbókasafns Reykjavíkur.

Nemendur í 10. bekk njóta kennslu í valgreinum í Tækniskóla Íslands (grunnskólavali). 

Matreiðsla verður kennd í húsakynnum Vesturbæjarskóla í vetur.

Ef nemandi þarf leyfi eða hann getur ekki komið vegna veikinda eða af öðrum orsökum er óskað eftir því að foreldrar láti vita í síma/símsvara, tölvupósti eða með skriflegri orðsendingu. Æskilegt er að þær upplýsingar berist fyrir klukkan 10.00 að morgni. 

Skólaveturinn 2023 – 2024 fá nemendur og starfsfólk heitan mat í hádeginu frá fyrirtækinu Krúsku. Nemendur í 10. bekk afgreiða matinn og vinna sér um leið inn peninga í ferðasjóð 10. bekkinga en þeir safna fyrir Danmerkurferð/vorferð fyrir útskrift. Meiri hluti nemenda er áskrifandi að heita matnum en nokkrir kjósa að koma með nesti að heiman eða skjótast í löngu frímínútunum í búð eða bakarí í Miðborginni. Nemendum býðst að útbúa sér hafragraut þeim að kostnaðarlausu. Í eldhúsi á 3. hæð hafa nemendur aðgang að haframjölsskömmtum (keyptir í Costco). Þeim reynist auðvelt að hella soðnu vatni út á mjölið og ákveða þannig sjálfir  hversu þykkur hann á að vera. Epli eru að jafnaði á boðstólum og auk þess geta nemendur sem það kjósa keypt beyglur og samlokubrauð og hitað í brauðgrilli í eldhúsinu. Þeir smyrja sjálfir og bæta við osti, rjómaosti, skinku/pepperoni að vild. Bæði heiti maturinn og beyglur eru greidd með skólagjöldum einu sinni í mánuði, á kostnaðarverði.

Kennarar hafa ekki fastan viðtalstíma í skólanum. Ef foreldrar/forráðamenn óska eftir spjalli við kennara geta þeir sent tölvupóst, eða haft samband símleiðis. Ef kennarinn getur ekki brugðist strax við tekur ritari eða annar starfsmaður við skilaboðum og kennarinn hringir við fyrsta tækifæri. Það er auðsótt mál að óska eftir viðtali í skólanum. Þá er framgangurinn með sama hætti, nema fundartíminn er ákveðinn með einhverjum fyrirvara.

Allir nemendur skólans eru slysatryggðir. Ef nemandi slasast á skólatíma, hvort sem er í skólanum eða utan hans, s.s. á skólalóð eða á ferðum á vegum skólans greiðir skólinn kostnað vegna komu nemanda á slysadeild. Sama gildir um kostnað vegna flutnings nemenda frá skóla og til slysadeildar. Tannviðgerðir á nemendum tilkomnar vegna slysa í skóla eða á skólalóð á skólatíma eru endurgreiddar að hluta af Tryggingastofnun ríkisins. Það sem eftir er greiðir borgarsjóður, að ákveðinni upphæð, vegna einstaks slyss.

Persónulegir munir nemenda eru ekki tryggðir. Brýnt er fyrir nemendum að skilja ekki eftir verðmæti þar sem ekkert eftirlit er til staðar.  

Ef nemandi veldur vísvitandi skemmdum á eigum skólans, annarra nemenda eða þeirra sem þar starfa er hann bótaskyldur. Sérstakur samningur er gerður um afnot nemenda af tölvum skólans en hver nemandi hefur ,,sína“ tölvu sem er í eigu skólans.

Kostnaður vegna flutnings nemenda milli skóla og slysadeildar er greiddur. 

Skólastjóri sér um að ganga öðru hverju með óskilamuni í stofurnar í skólanum. Á viðtalsdögum er öllum óskilamunum sem þá eru í húsi komið fyrir á gangi á 1. hæð til þess að foreldrar/nemendur geti kannað hvort þeir kannist við sínar eigur meðal óskilamunanna. 

Ekkert eiginlegt bókasafn er í skólanum. Við nýtum óspart Borgarbókasafn Reykjavíkur í Tryggvagötu og höfum notið frábærrar þjónustu starfsmanna þar um árabil. Allir nemendur fara vikulega eða oftar í bókasafnið.

Nemendur sækja íþróttakennslu í íþróttasal Kvennaskólans í Miðbæjarskólahúsinu og sund í Sundhöll Reykjavíkur. 

Í Aðalnámskrá grunnskóla (2011 og 2013) segir, að í samræmi við reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum skuli skipulag sundkennslunnar miðast við að 15 nemendur séu að jafnaði í hverjum sundtíma. Til að tryggja öryggi nemenda í kennslustundum og tryggja að markmiðum kennslunnar verði náð skulu nemendur ekki vera fleiri en 15 þegar þeir eru 10 ára og yngri eða ósyndir.  Í skipulagi sundkennslu þarf einnig að taka tillit til þeirrar aðstöðu sem er fyrir hendi, s.s. stærðar laugar og búningsaðstöðu.

Ef nemendur eru fleiri en 15 í sundtíma þá gerir mennta- og menningarmálaráðuneytið þá kröfu að kennari hafi með sér aðstoðarmann í sundtímanum. Viðkomandi aðstoðarmaður verður að hafa tekið hæfnipróf sundstaða eins og reglugerð nr. 814/2010 gerir kröfur um.

Í reglugerðinni er jafnframt fjallað um öryggi í skólasundi. Samkvæmt reglugerðinni skal íþróttakennari í samvinnu við starfsmenn sundstaða fara árlega, eða við upphaf hvers sundnámskeiðs, yfir helstu reglur sem gilda á sundstöðum og yfirfara vinnutilhögun í tengslum við sundkennslu þannig að fyllsta öryggis nemenda sé gætt. Íþróttakennari skal einnig gera nemendum grein fyrir þeim hættum sem geta fylgt sundiðkun.

Í breytingu á reglugerð nr. 814/2010 sem gerð var á árinu 2012,  nr. 773/2012 kemur m.a. fram: „Þar sem hópar barna undir 10 ára aldri eru saman komnir skulu ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers kennara eða ábyrgðarmanns hóps sem, ásamt laugarverði, er ábyrgur fyrir hópnum. Miða skal við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi séu lögráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Til að auðvelda kennara eða ábyrgðarmanni hópa að fylgjast með hverju barni skulu hópar barna sérstaklega auðkenndir með áberandi lit á sundhettum, armböndum, vestum eða á annan sambærilegan hátt. Fyllsta öryggis skal gætt þegar komið er með hóp af börnum og unglingum í sund. Kennarar og ábyrgðarmenn hópa skulu kynna sér reglur sund- og baðstaða og aðstoða starfsfólk sund- og baðstaða við gæslu.

Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu ávallt gæta þess í samvinnu við starfsfólk sund- og baðstaða að nemendur fari ekki að laug á undan þeim. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu aldrei víkja frá laug fyrr en allir nemendur/iðkendur yngri en 15 ára eru farnir inn í búnings- eða baðklefa. Þau varúðaratriði sem hvíla á laugarverði hvíla einnig á kennara, þjálfara og leiðbeinanda varðandi nemendur og iðkendur.“

Skv. aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 í skólaíþróttum (bls. 181-193) er í skólasundi miðað við að nemendur fái a.m.k. 40 mínútur á stundaskrá skóla í hverri viku skólaársins. Þar sem slíku skipulagi verður ekki við komið skal kenna skólasund á árlegum námskeiðum. Á slíkum námskeiðum skal hver nemandi fá að lágmarki 800 mínútur í kennslu. Sá tími, sem eftir stendur, skal nýta til skólaíþrótta (miðað er við 40 mín. kennslustundir).

Skv. viðmiðunarstundaskrá aðalnámskrár grunnskóla, er gert ráð fyrir að heildartími skólaíþrótta í 1.- 4. bekk sé 480 mínútur í viku hverri, 5.-7. bekk sé 360 mínútur og 8.-10. bekk 360 mínútur (að meðaltali 120 mínútur í hverri viku skólaársins frá 1. – 10. bekkjar).

Ráðuneytið væntir þess að allir skólastjórnendur og þeir kennarar sem annast sundkennslu, kynni sér vel ákvæði í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá um skólaíþróttir, sjái til þess að nemendur fái lögbundna kennslu og að fyllsta öryggis sé gætt.

Nemendur hafa því miður ekki skápa í skólanum. Við búum við þröngan húsakost og sjáum ekki fyrir okkur að hægt sé að koma slíkum skápum fyrir með góðu móti.  Til þess að tryggja að eigum nemenda sé ekki stolið er húsinu er lokað kl. 8.30 og eftir það þarf að hringja á dyrabjöllu til þess að komast inn í skólahúsið. Hver nemandi hefur þó sitt hólf í bekkjarstofu þar sem hann getur geymt persónuleg námsgögn.

Vettvangsheimsóknir, skólaferðalög, utanlandsferðir, móttaka erlendra gesta

Á hverjum vetri fara allir nemendur skólans saman í að minnsta kosti tvö ferðalög; haustferð og skíðaferð. Auk þess hafa tíundu bekkingar farið og heimsótt vinaskóla í Danmörku að vori, að öllu jöfnu. Sú ráðstöfun er reyndar komin á bið þar sem aðstæður vina okkar í Danmörku hafa breytst.  Í haustferð og skíðaferð greiða nemendur engan kostnað nema vegna nestis í ferðina og ef þeir þurfa að leigja búnað í skíðaferð. Um Danmerkurferðina gilda aðrar reglur, þá safna nemendur  og foreldrar gjarnan fyrir ferðinni yfir veturinn en skólinn leggur alltaf talsvert af mörkum, s.s. að greiða laun kennara sem fara með nemendur í ferðina, ferðakostnað, undirbúningstíma og fleira. 

Kennarar skólans eru duglegir að fara með nemendur á söfn, heimsækja stofnanir og skoða umhverfið. Hér má nefna reglulegar heimsóknir á Borgarbókasafn Reykjavíkur, heimsókn í Landnámssafnið, Þjóðminjasafnið, Þjóðmenningarhús, Skólaþing, Hvalasafnið, Sjóminjasafnið og fleiri menningarstofnanir. Ferð í Keiluhöll og fjölmargar heimsóknir nemendahópa á tvennum þemadögum í skólanum eru að jafnaði á dagskrá á hverjum vetri. Nemendur stunda útinám, fara í  ratleiki og svo nefnd Tjarnarskólahreysti er alltaf á dagskrá skömmu fyrir páska. Nemendur taka einnig þátt í ABC-hjálparstarfi með því að fara um miðborgina og safna í hjálparsjóð. Nemendur heimsækja fyrirtæki og söfn, fara í fræðsluferðir s.s. að fræðast um kynbundið ofbeldi hjá lögregluembættinu, fara gjarnan á nokkrar bíósýningar í Bíó Paradís, taka þátt í Vísindasmiðju Háskóla Íslands og fara á kynningar s.s í Kramhúsinu og fleiri líkamsræktarstöðvum.  Tíundu bekkingar fara síðan í nálægt 10 framhalds-skólaheimsóknir  á hverjum vetri. Nemendur hafa einnig átt þess kost í íþróttavali að heimsækja ýmsa staði sem bjóða upp á líkamsrækt, svo sem skvass, klifur, skauta, badminton, túnið við Kjarvalsstaði og fleira. Þeim hefur einnig boðist að vera í heimsóknavali og hafa þá heimsótt ýmsa vinnustaði sem þeir hafa haft áhuga á að kynna sér. Nemendum gefst einnig tækifæri á að velja svo nefnt leikskólaval. Þeir fara þá í heimsókn á leikskóla einu sinni í viku og taka þátt í starfinu þar.

 Í þessum ferðum gerum við miklar kröfur til nemenda um að sýna fallega framkomu og segjum gjarnan að það sé mikilvægt fyrir þá að skilja eftir sig góðar minningar fyrir þá sem taka á móti þeim. Einnig er ítrekað að skólareglurnar gildi hvar sem nemendur koma fram í nafni skólans og ítrekað að þeir séu sjálfum sér, foreldrum sínum og skólanum til sóma.

Við höfum verið í samstarfi við vefstjóra vefsins Námfús síðast liðin ár. Á vefnum má nálgast fjölbreyttar upplýsingar um framgang námsins, skipulag skólastarfsins og einnig senda pósta og fá upplýsingar um heimanám, námsframvindu og ýmislegt fleira. Við erum mjög varkár í skráningu með tilliti til viðkvæmra persónuupplýsinga.

www.namfus.is

Haustið 2018 hófum við notkun á Google Classroom kerfinu eins og fram hefur komið. Kerfið gefur kost á að eiga samskipti við nemendur, foreldra og kennara innbyrðis. Nemendur geta fengið persónuleg skilaboð um verkefni og framgang þeirra frá kennara og sömuleiðis geta nemendur sent kennurum spurningar og athugasemdir í gegnum kerfið. 

Í Tjarnarskóla er mikil áhersla lögð á að foreldrar og skólinn vinni saman að góðri námsframvindu hvers nemanda og velferð hans. Við leggjum afar mikið upp úr góðu upplýsingastreymi í þeim tilgangi að foreldrar og nemendur séu vel upplýstir um skólastarfið, nám og samskipti og vellíðan hvers nemanda.  

Námfús

er mikið notaður til þess að koma upplýsingum á framfæri. Bæði nemendur og foreldrar fá aðgangsorð í upphafi skólastarfsins og þar má einnig vinna sjálfsmat í annarlok og eiga margvísleg samskipti. Við notum Námfús þegar nemendur velja sér valgreinar og þegar foreldraviðtöl eru skipulögð.

Tölvupóstar

eru sendir um ýmislegt sem tengist skólalífinu. Við leggjum okkur fram um að veita upplýsingar um skólalífið, viðburði, hagnýtar upplýsingar, fræðslu og fleira í þeim dúr. Ritari umsjónarkennarar og skólastjóri sjá að mestu um þessa upplýsingagjöf.

Umsjónarkennarapóstar

eru að öllu jöfnu sendir einu sinni í viku. Í þeim fá foreldrar/forráðamenn sundurliðaðar upplýsingar um mætingu og ástundun nemandans. Upplýsingar af öllu mögulegu tagi, s.s. það sem er á döfinni í skólanum, það sem er hagnýtt að foreldrar fái vitneskju um, nestismál, félagsmál og margt fleira má sjá í umræddum umsjónarkennarapóstum auk persónubundna upplýsinga.

Heimasíðan okkar 

www.tjarnarskoli.is:  Á henni eru settar inn fréttir af skólastarfinu og ýmsar hagnýtar upplýsingar. Vinna er hafin við endurnýjun á heimasíðunni og verður væntanlega komin ,,í loftið“ í nóvember/desember ef allt gengur eftir. Ný síða er í vinnslu

Fésbókarsíður 

eru nýttar til að veita upplýsingar. Foreldrar og kennarar hafa sameiginlega, lokaða síðu á Fésbókinni og við höfum einnig nýtt Fésbókarsíður til þess að vera í sambandi við dönsku gestina okkar, eða þegar við höfum farið í heimsókn til Roskilde í Danmörku. Foreldraráðið hefur einnig búið til sína síðu og foreldrar hafa búið til samskiptasíður bekkjarforeldra. Hagnýtar upplýsingar ásamt fréttum og myndum úr skólastarfinu er komið reglulega á framfæri. Í kjölfar nýrra persónuverndarlaga biðjum við um skriflegt leyfi hjá foreldrum/forráðamönnum og nemendum til að birta myndir úr skólastarfinu í jákvæðum tilgangi. Það er gert í umsóknarferlinu. Engar athugasemdir um myndbirtingar hafa borist. Í kjölfar ábendinga frá persónuverndarfulltrúanum okkar, hjá fyrirtækninu Dattacalabs, hyggjumst við hætta að nýta okkur Fésbókina með ofangreindum hætti og flytja yfir á lokuð svæði á nýju heimsíðunni okkar. 

SMS sendingar

Við notum stundum Námfús til að senda nemendum og foreldrum smáskilaboð. Bæði til að minna á en einnig til að veita upplýsingar.

Við upphaf skólastarfsins höldum við fundi með foreldrum í morgunsárið. Á þeim fundum er farið yfir ýmis hagnýt atriði, nýir foreldrar fá upplýsingar um Tjarnarskólabraginn, matarmál eru ávallt á döfinni og á þessum fundum tilnefna foreldrar fulltrúa í stjórn foreldrafélagsins, bekkjarráð og skólaráðið. Skólastjóri kallar síðan saman stjórn foreldrafélagsins þar sem hópurinn skiptir með sér verkum.  

Í lok 1. og 2. annar hittir umsjónarkennari hvern nemanda ásamt foreldri/forráðamanni í 20 mínútur. Farið er yfir námslega og  félagslega stöðu, markmið og stöðumat og teknar ákvarðanir um breytingar ef þurfa þykir.

Skólaráð heldur einn svo nefndan ,,opinn fund“ á skólaárinu. Á þessum fundum á sér gjarnan stað bæði fræðsla og upplýsingastreymi um skólastarfið ásamt góðri samveru.

Um útívistartíma barna- og unglinga er fjallað í 92. grein barnaverndarlaganna en þar segir: 

Börn sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22:00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.“

Þau aldursmörk sem getið er um í reglunum miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag, því gilda sömu reglur um fyrir öll börn í sama árgangi.

Nánar má lesa um útivistartíma á vef Umboðsmanns barna:  

Reglur sem vísað er til.