S: 5624020  /  5516820   Lækjargata 14b, 101 Reykjavík

Nemendaráð skólaárið 2024 - 2025

Nemendaráð og félagsstarf nemenda

Ari Lange Eggertsson, 10. bekk

Matthías Thorberg Magnússon, 10. bekk

Til vara: Elíndís Arnalds Pálsdóttir

Lóa Kristín Óskarsdóttir, 9. bekk

Saga Ljós Sigurðardóttir, 9. bekk

Til vara: Hrafnhildur Steinunn Vignisdóttir og Tómas Ámundi Tómasson

Heiða Marín Ásmundardóttir, 8. bekk

Jakob Friðrik Jakobsson, 8. bekk

Til vara: Hugi Steinn E. Diðriksson

Þrátt fyrir fámennið hafa nemendur verið iðnir við að halda uppi félagslífi í skólanum. Stærsti viðburður á hverjum vetri er árshátíð Tjarnarskóla. Sú hefð hefur skapast að halda árshátíðina hjá nágrönnum okkar í Iðnó en skólinn hefur engan samkomusal í gamla skólahúsinu að Lækjargötu 14b en tvö síðast liðin ár höfum við haft árshátíðina í sal Hard Rock í Lækjargötu. Þá er fastur liður að hafa hinar ýmsu tilnefningar í aðdraganda árshátíðar s.s. bros Tjarnarskóla, bjartasta von Tjarnarskóla, krútt Tjarnarskóla o. fl.  Nemendur undirbúa einnig myndband sem nefnist ,,Kennaragrín“ – þar sem þeir gera góðlátlegt grín að starfsfólki skólans. Það vekur ávallt mikla kátínu. Kennararnir hafa einnig brugðið sér í myndbandsgerð til þess að kæta nemendur skólans á árshátíðinni.  Sú hefð hefur einnig  fallið í afar góðan jarðveg.

Þátttaka nemenda í viðburðum á vegum Samfés

Það er ánægjulegt hve áhugi hefur vaxið í skólanum að taka þátt í viðburðum á vegum Samfés með góðum árangri. Nemendur hafa tekið þátt í Skrekk, Stíl, Dans- og Söngkeppni grunnskólanna.

Starfsáætlun nemenda

Vikulegur stundafjöldi

Vikulegur kennslutími nemenda í skólanum skal vera að lágmarki 1480 mínútur á viku. Nemendur og foreldrar hafa ávallt aðgang að stundaskrám á vefnum Námfúsi (www.namfus.is ). Stundaskrá hvers nemanda tekur breytingum í upphafi hverrar annar í samræmi við þær valgreinar sem hann velur sér eða samkvæmt breyttum forsendum. 

Samfelld stundaskrá

Stundaskráin er samfelld hjá öllum nemendum skólans. Kennslulotur eru ýmist 40 eða 60 mínútur. Fyrstu 15 mínútur hvers skóladags eru frjálslestrarmínútur. Nestishlé erum um miðjan morgun, 20 mínútur. Kl. 11.10 fara nemendur út í hreyfingu í 10 mínútur (sem er hluti af vikulegri íþróttaiðkun) og síðan 40 mínútna matarhlé í hádegi. Eftir hádegi höfum við 5 mínútna frímínútur á milli tíma. 

Sveigjanleiki innan námssviða

Leitast er við að hafa sveigjanleika innan námssviða á hverjum vetri.  Þetta birtist m.a. í skipulögðu starfi s.s. þemadagavinnu, samþættingu námsgreina, valgreinum þvert á árganga, ýmiss konar uppbroti á skólastarfinu og fleira. Kennarahópurinn vinnur þétt saman að því að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi. Á hverjum vetri vinna nemendur margvísleg samvinnuverkefni. Við erum ákaflega stolt af fyrirkomulagi þemadaganna í skólanum. Að öllu jöfnu eru þeir tvisvar á ári, þrjá til fjóra kennsludaga í senn. Við sjáum ótrúlega margt skemmtilegt leysast úr læðingi  á þessum dögum því þá eru nemendur í sannkölluðum þjálfunarbúðum í samskiptum, samvinnu, og listrænni sköpunarvinnu. Það er alltaf keppikeflið að allir séu virkir og séu meðvitaðir um að þeirra framlag skipti máli; bæði fyrir þá sem einstaklinga en einnig fyrir samstarfshópinn í heild.  Við höfum þróað sérstök matsblöð þar sem nemendum sjálfum er ætlað að meta hina ýmsu þætti hópastarfsins, s.s. eigið framlag, verkaskiptingu í hópnum, hópstjórn, samvinnu og færni á ýmsum sviðum. Nemendur sjálfir meta gjarnan sína eigin vinnu,  en einnig vinnu annarra hópa í þeim tilgangi að gera þá betur meðvitaða um hve miklu máli það skiptir að vera góður þátttakandi í hóp og að samskiptin séu uppbyggjandi. Kennarar leggja að sjálfsögðu sína mælistiku á verkefni af þessu tagi og viðurkenningar eru veittar fyrir góða frammistöðu. Þemadagarnir hafa verið meðal þróunarverkefna skólans.

Margvísleg önnur samvinnuverkefni eru ávallt á döfinni á hverjum vetri í hinum ýmsu námsgreinum og þvert á árganga, s.s. stærðfræðimælingar, samvinnuverkefni í tengslum við þjálfun í tæknimennt, t.d.  í notkun á Glogster, Kahoot og Pinterest, útiverkefni í náttúrufræði, glærusýningar í tungumálanámi og samfélagsfræði, ratleikir, myndlistarverkefni, töflureikniverkefni, uppsetning á leikriti, verkefni í kjölfar heimsókna, fjarnám í framhaldsskólum, verkefnið, námskeiðið ,,Hugsað um barn“, verkefni sem tengjast félagsstarfinu í skólanum, undirbúningur vegna erlendra gesta en við eigum vinaskóla í Danmörku; Roskilde Lille Skole, samvinna í tengslum við hinar ýmsu valgreinar, verkefni sem tengjast Evrópusamstarfi  … og þannig mætti lengi telja. 

Nemendur geta lokið námi á mislöngum tíma

Nemendur í Tjarnarskóla eiga þess kost að ljúka grunnskólanámi einu ári fyrr en fæðingarár þeirra segir til um. Þegar ákvörðun er tekin um slíkt fjallar kennarahópurinn um möguleika nemandans á því að ljúka tilætluðum námsmarkmiðum á styttri tíma en ella. Nemandinn sjálfur og foreldrar ráðgast við umsjónarkennara og síðan eru línurnar lagðar, oftast með þeim hætti að flytjast í 10. bekk, eftir 8. bekk. Allir nemendur sem hafa farið þessa leið hafa staðið sig afar vel og verið sáttir við að fá þetta tækifæri. 

Fjarnámsáfangar á framhaldsskólastigi

Á hverjum vetri skráum við nokkra nemendur í fjarnámsáfanga í framhaldsskóla. Undanfarin ár hafa skólarnir FÁ og Verzlunarskólinn boðið upp á fjarnámsáfanga. Með þeim hætti mætum við þörfum og áhuga þeirra sem fara hratt yfir námsefnið og vilja jafnvel flýta fyrir náminu á framhaldsskólastigi. Nemandinn þarf ekki að greiða fyrir áfangana og Tjarnarskóli leggur þeim til námsefnið. Með þessum hætti erum við að koma til móts við þá sem leggja hart að sér í námi og vilja nýta tímann og námshæfileikana sér í hag.  Við skólaútskrift fá nemendur skjal frá skólanum þar sem tilgreint er hvaða fjarnámsáföngum þeir hafa lokið, ásamt vitnisburði. Þessum upplýsingum er komið á framfæri þegar nemendur sækja um framhaldsskóla.  

Valgreinar og samvinna við Tækniskólann og fleiri aðila

Veturinn 2023-2024 er 200 mínútum varið í  valgreinar á stundaskrá nemenda í 8. og 9. bekk, en 5 stundir hjá 10. bekk. Nemendur í 8. og 9. bekk velja sér námskeið að jafnaði þrisvar yfir veturinn, á 1. 2. og 3. önn. Skólaárið 2018 – 2019 hófum við samvinnu við Tækniskólann um svo nefnt ,,grunnskólaval“ en þar býðst 10. bekkingum að sækja fjölbreytt námskeið í þremur lotum en kennslan fer fram á fimmtudögum kl. 14.35 – 16.35. Við höfum einnig fengið aðstöðu fyrir tónlistarsköpun hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur í Tryggvagötu og nemendur sækja leirlistar- og myndlistartíma í  húsnæði Háskóla Íslands í Skipholti. Við höfum einnig fengið inni í Tækniskólanum fyrir fablabkennslu, þó ekki í vetur, vegna aðstæðna. Í vetur bjóðum við einnig upp á matreiðslu sem kemur til með að vera í húsnæði Vesturbæjarskóla. Á síðasta skólaári var smíðakennsla í Suðurhlíðarskóla en ekki liggur fyrir hvort af þeirri kennslu geti orðið á þessu skólaári.