Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Fréttir


 • ,,Opið hús" í febrúar

  Í lok febrúar skipulagði nemendaráðið Opið hús. Snyrtifræðingurinn Guðrún Halla kom í heimsókn og fræddi krakkana um húðsnyrtingu. Sumir duttu í lukkupottinn og unnu sér inn snyrtivöruglaðning. Stelpunum fannst mjög gaman að kynnast því hverning hægt er að skeyta neglurnar eins og sjá má á myndunum. Svo var spilað og kíkt á myndband.  Það eru fleiri myndir á myndasíðunni.

 • Unglingurinn í Gaflaraleikhúsinu

  Það var mikið hlegið á leikritinu Unglingurinn í Gaflaraleikhúsinu fyrir skemmstu.. Þeir Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson fóru á kostum. Leikritið dregur upp bráðskemmtilega mynd af lífi unglinga og hefur ýmsar tilvísanir, bæði kátbroslegar en einnig með alvarlegum undirtón. Þær Anna Dögg og Sara voru dregnar upp á svið og látnar taka þátt í einu atriðinu. Þær stóðu sig mjög vel við mikla kátínu skólafélaganna. Fín skemmtun sem foreldrafélag Tjarnarskóla stóð fyrir!

 • Myndmennt í þrívídd

  Nemendur í Kvos voru í skemmtilegum myndmenntatímum í dag. Efnið sem unnið var með var trépinnar og rófuteningar. Útkoman var stórskemmtileg. Það má sjá fleiri myndir á myndasíðunni.

 • Valið á föstudögum, góð tilbreyting

  Á föstudögum lýkur skólastarfinu með valtímum. Á 2. önninni völdu nemendur jóga, kvikmyndir, sauma, prjón og hekl, leikjagerð (role play) og tálgun. Á 3. og síðustu önninni, sem hefst í næstu viku verður fleira á boðstólum, nemendur velja þá að nýju. Á myndasíðunni má sjá fleiri myndir úr þessum tímum.

 • Tíundubekkingar æfðu foreldrahlutverkið

  Nemendur í 10. bekk tóku þátt í mjög krefjandi verkefni í síðustu viku. Þeir voru með sýndarbarn frá miðvikudegi til föstudags og sinntu barninu allan sólarhringinn. Það var ný lífsreynsla að þurfa í tíma og ótíma að gefa pela, skipta á bleyju, hugga og rugga samhliða því að vera í skólanum, tónlistarnámi og íþróttaiðkun.  Allir stóðu sig með mikilli prýði. Á föstudeginum var þreytan þó farin að segja til sín. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Ólaf Grétar Gunnarsson. Nemendur fá viðurkenningarskjal fyrir þátttöku í þessu námskeiði og auðvitað mikilvæga reynslu í farteskið.

 • Krakkarnir í Kvos fóru í Listasafn Reykjavíkur

  Nemendur í Kvos fóru með Veru, myndmenntakennara, á sýningu í Listasafni Reykjavíkur. Þar stendur yfir sýning á verki Katrínar Sigurðardóttur, Undirstöðu, sem var framlag Íslendinga til Feneyjartvíæringsins 2013. Skemmtilegt tækifæri!

 • Kynningarfundur fyrir foreldra 10. bekkinga

  Haldinn var kynningarfundur fyrir foreldra 10. bekkinga áður en verkefni ,,Hugsað um barn" fór af stað í skólanum. Ólafur Grétar Gunnarsson, kom og sagði foreldrum frá verkefninu. Þetta er í 5. skipti sem nemendur í Tjarnarskóla taka þátt í þessu verkefni. Tilgangurinn er að kynnast því hvaða ábyrgð og álag fylgir því að eignast barn og annast það. Ólafur lagði mikla áherslu á umönnunarþáttinn og þá staðreynd að á Íslandi er hlutfall unglinga, sem eignist börn áður en þeir eru í raun tilbúnir að takast á við það verkefni að verða foreldrar, með því hæsta sem gerist meðal þeirra þjóða sem við miðum okkur gjarnan við. 

 • Rannsóknarverkefni í vinnslu

  Nemendur eru allir að vinna við rannsóknarverkefni sem á að skila í mars. Einn liðurinn er að gera veggspjald til þess að kynna verkefnið. Veggspjöldin hanga nú frammi á gangi. Það verður spennandi að fylgjast með framganginum og sjá hversu hugmyndaríkir nemendur eru. Verkefnum má skila sem myndbandi, listaverki, líkani, útvarpsþætti, glærusýningu, hönnunarverkefni, nýsköpunarverkefni og svo framvegis.

 • Nýrri heimasíðu fagnað

  Í tilefni af því að ný heimasíða hefur verið birt á netinu gerðum við okkur glaðan dag. Skúffukaka og ísköld mjólk runnu ljúflega niður í maga. Loksins gefst aftur tækifæri til að færa fréttir af skólastarfinu. 

 • Ný heimasíða í burðarliðnum

  Nýja heimasíðan okkar hefur verið í smíðum síðustu vikur til þess að leysa þá gömlu af. Flutningar taka sinn tíma þannig að nýja síðan verður áfram í mótun, eftir að hún kemst í gagnið. Það er tilefni til að fagna, loksins getum við sýnt myndir og sagt nýjustu fréttir úr skólastarfinu.  Húrra! 


Efst á síðu