Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Fréttir


 • Árshátíðin næst á dagskrá

  Nemendur í árshátíðarnefndinni hafa verið afar duglegir að skipuleggja og tryggja að árshátíðin verði sem glæsilegust. Eins og mörg undanfarin ár höfum við haldið hátíðina í næsta húsi; Iðnó við Tjörnina. Það var  mikil tilhlökkun í húsinu í dag. Nemendur mættu með ýmislegt góðgæti að gæða sér á í morgun. Það voru bakaðar vöfflur og pönnukökur sem undirstrikuðu eftirvæntinguna. Það verður spennandi að sjá árlegt kennaragrín og skemmtiatriði nemenda. Dönsku gestirnir okkar voru einnig góðir þátttakendur. 

 • Tíu góðir danskir gestir í viku

  Við höfum haft tíu danska gesti frá Roskilde í Danmörku í heimsókn í þessari viku. Það hefur verið afar ánægjulegt að hafa þessa góðu gesti í húsi í heila viku. Þeir hafa kynnt sér skólastarfið í Tjarnarskóla og tekið þátt í kennslunni þessa daga. Þessi heimsókn er liður í því að kanna möguleika á áframhaldandi samstarfi með gagnkvæmar heimsóknir í huga á milli Tjarnarskóla og skólans þeirra í Roskilde. Nemendur undirbjuggu sig fyrir 

 • Heimsókn í Framhaldsskólann í Mosfellsbæ

  Tíundu bekkingar, Sirrí og Hans, einn danski gesturinn okkar,  fóru í heimsókn í Framhaldsskólann í Mosfellsbæ fyrri stuttu. Þau fengu prýðilegar móttökur og fannst mikið til um nýja byggingu skólans. Það var greinilegt að nemendum leist vel á skólann.

 • Þórdís Elva fræddi um ,,sexting"

  Foreldrafélag Tjarnarskóla fékk Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur til þess að fræða foreldra og kennara um svo nefnt ,,sexting" (orðið á rætur sínar í sex og texting). Erindi Þórdísar var afar áhugavert og áhrifaríkt. Hún leiddi okkur inn í netheima og sýndi okkur hvernig myndbirtingar og skilaboð geta verið mjög afdrifarík. Dæmi eru um að einstaklingar hafi í raun tapað mannorði sínu á þessum vettvangi. Næsta skref er að fá Þórdísi til að halda fyrirlestur fyrir nemendur. Við hvetjum alla foreldra til þess að kynna sér málið.

 • Sólmyrkvastemning

  Það skapaðist skemmtileg stemning í skólanum á sólmyrkvamorgninum góða. Allir fengu þessi fínu gleraugu að gjöf og héldu út í góða veðrið. Ótrúlegur fólksfjöldi var við Tjarnarbakkann og veðrið hið fegursta. Skemmtileg upplifun. Við erum þakklát fyrir gleraugun góðu, bestu þakkir!

 • Gestir frá Herranótt í MR

  Á dögunum komu gestir frá Herranótt Menntaskólans í Reykjavík og kynntu rokksöngleikinn Vorið vaknar. Í hópnum var hún Margrét okkar Andrésdóttir, fyrrverandi Tjarnskælingur. Við þökkum gestunum kærlega fyrir heimsólknina og óskum þeim alls góðs á leiklistarbrautinni.

 • Fimmmenningar, Birna og Sirrí í Feneyjum

  Þau Anna Dögg og Vigdís í 9. bekk, Anna Lucia, Guðrún og Sigurður Hákon í 10. bekk ásamt kennurunum Birnu Dís og Sirrí fóru til Ítalíu og Slóveníu á sunnudaginn. Þessi ferð er liður í Evrópuverkefni sem við erum að taka þátt í ásamt nemendum í fimm öðrum löndum. Við höfum fylgst með þeim í gegnum Fésbókina og sáum þessa fínu mynd af þeim í Feneyjum. Nemendur gista hjá ítölskum fjölskyldum og nota ensku óspart.  Það verður gaman að fá ferðasöguna þegar þau koma aftur til baka, sunnudaginn 8. mars. Sendum þeim bestu kveðjur úr Tjarnó. 

 • Ungbarnadagar hjá 10. bekkingum

  Ungbarnadagarnir hjá 10. bekkingum gengu afar vel.  Tíundu bekkingarnir okkar eru þeir sjöttu í röðinni sem taka þátt í þessu verkefni. Það gengur út á að kynnast því hvaða ábyrgð og álag felst í því að hugsa um ungbarn. Nemendur eru með ,,ungbarnið" í tvo sólarhringa og þurfa að gæta þess að barninu sé hlýtt og fái að drekka. Það þarf einnig að skipta um bleyju, láta barnið ropa, rugga því og sýna því athygli og umönnun. Það er alltaf mjög skemmtilegt yfirbragð í skólanum þessa tvo daga sem nemendur eru með ,,börnin". Það má iðulega heyra barnsgrátur og við hin fylgjumst með. Síðan eru oft blendnar tilfinningar að skila barninu eftir tvær nætur og tvo daga. Nemendur stóðu sig afar vel í þessu verkefni. 

 • Myndatökur fyrir nýjan Tjarnarskólabækling

  Fyrir stuttu var mikið umleikis í skólanum vegna myndatöku fyrir nýjan Tjarnarskólabækling. Það var lærdómsríkt að fylgjast með hvernig ljósmyndari, förðunarfræðingur og stílisti unnu með nokkrum frábærum Tjarnskælingum við verkefnið. Margrét smellti nokkrum myndum af meðan á þessu öllu saman stóð.  Við hlökkum til að sjá hvernig til tókst og nemendur fá bestu þakkir fyrir að gefa sér tíma í þetta og foreldrar fyrir að leyfa þeim að taka þátt.

 • Öskudagur er alltaf litríkur í skólanum

  Sú hefð hefur skapast undanfarin ár að við brjótum upp skólastarfið á öskudag. Við tökum fram spil, nemendur skjótast í miðbæinn og syngja fyrir nammi, eða öðrum gjöfum og í hádeginu bjóðum við upp á pizzur, vöfflur, kleinur eða annað sem kætir magann. Að þessu sinni urðu pizzur fyrir valinu. 

 • ,,Skypað" til Grikklands og Slóveníu

  Nýtt Evrópuverkefni er hafið í skólanum undir stjórn Þóris og Birnu með aðstoð Sirríar. Á dögunum var efnt til spjalls á Skypinu við nemendur í Grikklandi og Slóveníu. Þetta var einn liður í undirbúningi fyrir ferð nemendahóps til Ítalíu og Slóveníu í byrjun mars.

 • Undirbúningur ungbarnadaga fyrir foreldra

  Ólafur Grétar Gunnarsson kom til okkar snemma í febrúar og fræddi foreldra um væntanlegt verkefni 10. bekkinga. Við köllum verkefnið ,,Hugsað um barn" þar sem nemendur æfa sig í foreldrahlutverkinu með því að annast sýndarbarn í tvo sólarhringa. Fyrirlestur Ólafs var mjög fróðlegur og fjallaði meðal annars um rannsóknir sem sýna hve fyrstu mánuðir í lífi ungbarns eru mikilvægir fyrir það sem koma skal á lífsleiðinni.

 • Vöfflur, ávaxtaspjót og próflok

  Við próflok 2. annar gæddum við okkur á ávaxtaspjótum og vöfflum sem heimilisfræðihópurinn útbjó. Vöffluilmur og notaleg tilfinning var ríkjandi.

 • Skemmtilegt tölvuleikjakvöld

  Nemendaráðið skipulagði mjög vel heppnað tölvuleikjakvöld í skólanum fyrir skemmstu. Alls konar leikir voru á dagskrá og allir voru sammála um að kvöldið hafi heppnast mjög vel. Mikil stemning. 

 • Vísindakynning HÍ í Háskólabíói

  Nemendur nutu svo sannarlega góðs af kynningu Háskóla Íslands í Háskólabíói fyrir skemmstu. Nemendur fengu að kynnast ýmsu forvitnilegu á vísindasviðinu. Það er ómetanlegt að fá tækifæri eins og þetta. Það má sjá fleiri myndir á myndakrækjunni. 

 • Foreldrafélagið skipulagði gistiferð í Gufunesbæ

  Það kom upp sú hugmynd hjá nemendum að það gæti verið gaman að fara í  gistiferð í janúar. Hún kæmi til viðbótar við hefðbundna haustferð og skíðaferð. Foreldrar brugðust vel við þessu og skipulögðu skemmilega samveru í janúar frá kl. 18.00 og föstudegi til hádegis á laugardegi. Ekki þurfti að fara langt því samið var um gistingu í Gufunesbæ sem er innan borgarmarkanna. Um kvöldið var dansað, spilað, horft á mynd, borðað saman og síðan var endað á sameinginlegum ,,brunch" á laugardeginum. Stjórn foreldrafélagsins á veg og vanda að þessum vel heppnaða viðburði. Við sendum þakkir fyrir framtakið.

 • Skelltum okkur á skauta

  Það er tilvalið að skella sér á skauta í Laugardalnum. Það gerðum við.

 • Kakó í Tjarnarhólmanum

  Stundum notum við tækifærið og breytum til. Það er ævintýralegt að enda verkefni utan dyra með því að gæða sér á kakói í Tjarnarhólmanum.  Einmitt!

 • Þemadagar í desember

  Í desember voru skemmtilegir þemadagar í skólanum. Nemendur kynntu sér ýmislegt sem lýtur að kostnaði við hátíðahöld. Nemendur urðu margs vísari og þjálfuðu samvinnu af miklu kappi. Í lok þemadaga fór síðan fram víðtækt mat á þemaverkefnum hvers hóps um sig. Áður en nemendur fóru í jólafrí var tilkynnt hverjir höfðu skorað hæst. Myndirnar sýna verðlaunahafa í 1. og 2. sæti  en mjög mjótt var á mununum. Sjá má fleiri myndir á myndasíðunni.

 • Legotækniliðið stendur sig vel

  Það er gaman að fylgjast með krökkunum í Legotækniliðinu. Robotinn þeirra tekur framförum í hverri viku. Kristján, Þorsteinn, Sigga, Orri og Hákon, topplið undir leiðsögn Þóris kennara!


Efst á síðu