Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Fréttir


  • Tíundubekkingar heimsækja marga framhaldsskóla

    Á hverjum vetri fara nemendur í 10. bekk í margar framhaldsskólaheimsóknir (oftas 10-13). Þessar ferðir eru skipulagðir í tengslum við námstímana ,,Menntun og störf". Eftir jól hafa nokkrir skólar verið heimsóttir og fleiri heimsóknir verða farnar á næstunni. Myndir úr Borgó, FB, MR og FMos fylgja hér. Helga Júlía er alltaf mjög stolt af unglingunum okkar í þessum heimsóknum, þeir eru duglegir að spyrja og eru reynslunni ríkari þegar kemur að því að velja skóla í vor.

  • Foreldrar skipulögðu ,,sleepover" ferð

    Gufunesferð foreldrafélagsins tókst með miklum ágætum. Þetta er í annað sinn sem foreldrafélagið skipuleggur ferð af þessu tagi fyrir Tjarnarskólaunglingana, frábært framtak! Allir hittust upp úr klukkan 18.00 á föstudegi. Samverunni lauk síðan með sameiginlegum hádegis,,brunch" daginn eftir. Allir glaðir! 

  • Bíódagar í febrúar

    Nemendur unnu í 5 hópum við að búa til handrit, myndbönd og kynningarefni sem voru sýnd í lok Bíódaganna við góðar undirtektir. M.a. mátti sjá frábæra ,,trailera" eða veggspjöld eða annað kynningarefni. Hlynur sló í gegn í ,,Landanum" - óborgnalegu atriði sem var tekið við Tjörnina. Tíundu bekkingar voru mjög leyndardómsfullir þessa daga við að búa til kennaragrínið sem verður sýnt á árshátíðinni í apríl. Föstudaginn fyrir vetrarfrí var síðan verðlaunaafhending fyrir bestu hópvinnuna á kvikmyndadögum. Tveir hópar fengu einkunnina A, sem er harla gott, því það þurfti að uppfylla mörg skilyrði fyrir þeirri einkunn. Í öðrum hópnum voru: Brynja, Filippía, Hlynur og Gunnar, en í hinum þau Rebekka, Birta, Arndís, Hekla og Fylkir. Þau fengu bíómiða, popp og kók í verðlaun. 

    Takk, Tjarnókrakkar fyrir frábæra bíódaga! 

  • Hópur nemenda og kennara í Grikklandi þessa viku

    Birna og Þórir, kennarar, fóru með 6 nemendur, þær Ivönu, Lindu, Aniku, Mathildi, Birgittu og Jóhönnu og til Grikklands á sunnudaginn. Þau koma heim á föstudaginn. Þessi heimsókn er liður í Evrópuverkefni sem við erum að taka þátt í ásamt nemendum og kennurum í Grikklandi, Spáni, Slóveníu og Ítalíu. Við fengum einmitt rúmlega 30 gesti til okkar frá þessum löndum í september. Við höfum fengið myndir úr ferðinni og látum nokkrar fylgja hér. Við hlökkum til að fá ferðasöguna og sjá fleiri myndir. 

  • Ungbarnadagar 2016

    Tíundubekkingar tóku þátt í verkefninu ,,Hugsað um barn" í lok janúar. Þetta er í sjöunda sinn sem nemendum býðst að taka þátt í þessu verkefni. Undirbúningur var í höndum Ólafs Grétars Gunnarssonar, hjá ÓB-ráðgjöf, sem er samstarfsaðili okkar á Ungbarnadögum. Ólafur hélt fyrirlestra, bæði fyrir foreldra 10. bekkinga og nemendur áður en verkefnið hófst. Nemendur sáu um ,,ungbarnið" í tvo sólarhringa og fengu að kynnast því hvernig það er að annast ungbarn, hugga það, skipta á því, gefa að drekka og láta ropa. Allir stóðu sig með mikilli prýði og voru reynslunni ríkari að loknum tveimur sólarhringum með barnið, bæði í skólanum og heima.      Meira...

  • Flott rannsóknarverkefni komu í hús

    Mánudaginn 25. janúar var skiladagur rannsóknarverkefna. Það var mjög gaman að ganga um og skoða verkefnin sem voru af fjölbreyttu tagi. Hér má nefna nashyrninga í útrýmingarhættu, nýtt forrit þar sem skoða má þjóðfána Evrópulanda og hlusta á þjóðsöng hvers og eins, verkefni um bardagaíþróttina mmn, kynningu á Óskarsverðlaunahátíðinni, sundverkefni, umfjöllun um tónlistarmennina David Bowie og Justin Bieber og margt, margt fleira. Hér má sjá nokkrar myndir en miklu fleiri eru á myndasíðunni. 

  • Fræðsla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði

    Tíundu bekkingar fengu góðan gest á dögunum; Daða Rúnar Pétursson, frá VR, sem fræddi nemendur um hvaða réttindi og skyldur þeir hafa þegar þeir hafa ráðið sig í vinnu. Hann sagði frá á lifandi hátt og nemendur urðu margs vísari. Fín heimsókn.

  • Spilakvöld í janúar

    Nemendaráðið skipulagði skemmtilegt spilakvöld í janúar. Nemendur spiluðu Wiie, Play Station og Just Dance (stuð og stemning). Alltaf gaman að hittast. 

  • Dásamlegir bókaþemadagar

    Þemadagarnir í desember tókust með miklum ágætum. Nemendur brugðu sér í rithöfundagírinn og sömdu ótrúlega fínar barnabækur. Hver hópur samdi bók og myndskreytti. Hluti verkefnisins var að fara með bókina á leikskóla og lesa fyrir börnin þar. Þær heimsóknir voru mjög ánægjulegar. Þessa daga lögðu nemendur alla rafræna miðla til hliðar; tölvur, i-pada og síma og unnu upp á ,,gamla mátann". Mjög notaleg stemning var í húsinu. Þegar verkefnin voru metin var mjög mjótt á mununum hvaða hópar skoruðu hæst en þær Filippía, Anna Stella og Rebekka voru í þeim hópi og fengu verðlaunabókina Arftakann sem viðurkenningu. Sjá má myndir af bókinni þeirra en það eru fleiri myndir á myndakrækjunni. Sjón er sögu ríkari - við erum mjög ánægð með þetta verkefni hjá öllum!

  • Verðlaunahafinn Ragnheiður Eyjólfsdóttir kynnti Arftakann

    Rithöfundurinn Ragnheiður Eyjólfsdóttir kom til okkar á aðventunni og las upp úr bókinni Arftakinn - skuggasaga. Það er alltaf ljúft að fá upplestur og kynnast ævintýrum bókanna. Takk fyrir komuna, Ragnheiður og til hamingju með verðlaunin fyrir bókina!

  • Fuglar og fleira í myndlist

    Nemendur í myndlist hafa verið að vinna að ólíkum verkefnum. Hér má sjá sýnishorn en það eru einnig fleiri myndir á myndakrækjunni.

     

  • Eplaskífur, mmmm...

    Á föstudaginn bjuggu nemendur í heimilisfræði til ljúffengar eplaskífur og buðu nemendum og starfsfólki skólans. Þær reyndust mjög góðar og ljúfur bökunarilmur fyllti húsið.

  • Tilkynning frá Slökkviliði vegna skólahalds á þriðjudag

    Röskun verður á starfi grunnskóla vegna veðurs í dag þriðjudag

     

    Vegna veðurs má búast við að starf grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu muni raskast í dag þriðjudag. Skólar eru opnir en foreldrar eru beðnir að fylgja yngri börnum í skóla og yfirgefa þau ekki fyrr en þau eru í öruggum höndum starfsfólks.

     

    Gera má ráð fyrir töfum á umferð, það getur því tekið lengri tíma að komast í skólann.

     

    Nánari upplýsingar eru á shs.is og á Facebook-síðu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

     

     

      

    An important announcement from The Capital District Fire Department:

     

    Primary school services will be disrupted due to weather today Tuesday

     

    Due to weather, one can expect a disruption in primary school services in the Reykjavík area today. Schools are open but parents are asked to accompany young children to their schools and not to leave them until they have been safely received by school staff.

     

    Because of the weather the traffic might be slower, so it could take more time to get to school than usually.

     

    Further information on www.shs.is and on Facebook (Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins and lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.)



  • Ljúf samvera nemenda og fjölskyldna þeirra

    Það var kakóilmur og virkilega ljúf stemning í húsinu á fimmtudaginn. Foreldrar höfðu undirbúið samverustund þar sem piparkökuhús og klippiverk litu dagsins ljós. Tíundu bekkingar opnuðu lítið kaffihús (kakóhús) sem fjáröflun fyrir útskriftarferð. Samverustundir eins og þessar eru ómetanlegar og foreldrahópurinn sem sá um undirbúininginn fær hrós og þakkir fyrir framtakið. Það má skoða fullt af myndum inni á myndakrækjunni en hér birtum örfáar með fréttinni.

  • Gestir frá Samtökunum ´78

    Við fengum tvo góða gesti frá Samtökunum ´78 á dögunum sem ræddu við og fræddu nemendur um hinsegin fólk með öllum sínum blæbrigðum innan raða þess. Nemendur voru mjög duglegir að spyrja spurninga og góðar umræður sköpuðust. Við þökkum kærlega fyrir heimsóknina. 

  • Ragnhildur Hólmgeirsdóttir las úr Koparborginni

    Það er alltaf gaman að fá rithöfunda í heimsókn og það er einnig til marks um að nú fer jólabókaflóðið að streyma. Við fengum góðan gest í vikunni, hana Ragnhildi Hólmgeirsdóttur, sem las upp úr fyrstu bók sinni, Koparborginni. Atburðarásin var strax grípandi, ljóslifandi og spennandi. Nemendur fengu síðan tækifæri til þess að spyrja Ragnhildi um ýmislegt viðvíkjandi bókinni og tilurð hennar. Við þökkum henni kærlega fyrir komuna og óskum henni alls hins besta á rithöfundarferlinum.

  • Legókrakkar á fullu fyrir keppni

    Laugardaginn 14. nóvember ætla krakkarnir í Legóhópnum að taka þátt í keppninni Lego League í Háskólabíói ásamt á annað hundrað nemendum víðs vegar að á landinu. Þau hafa æft vel síðustu þrjá daga og eru til í slaginn. Við óskum þeim góðs gengis, að sjálfsögðu. Áfram Tjanró!!!!

  • Kahootverkefni

    Síðast liðna þrjá daga unnu nemendur bráðskemmtilegt verkefni. Um var að ræða lestur á stuttum útgáfum af Rómeó og Júlíu, eftir Shakespeare og Innrásinni frá Mars, eftir Orson Wells. Eftir lestur unnu nemendur verkefni, horfðu síðan á kvikmyndir um sama efni og í lokin var hópvinna þar sem unnin var spurningakeppni með því að nota forritið Kahoot. Alls voru hóparnir sjö. Það skapaðist skemmtileg stemning og spenna og auðvitað vann besti hópurinn. Í honum voru: Fanney, Ívana og Gunnur. Flott hjá þeim!  Til hamingju!

  • Hópeflisfyrirlestur í 9. bekk

    Þeir Benedikt Jóhannsson, sálfræðingur og Evar Friðriksson, sálfræðinemi og leikmaður í meistarflokki Vals í handbolta, voru góðir gestir í 9. bekk fyrir stuttu. Þeir héldu frábæran fyrirlestur um gildi þess að sýna jákvæðni og efla liðsheild í hóp, hvort sem er í íþróttum, bekk eða vinahópi, svo tekin séu dæmi. Líflegar umræður sköpuðust í bekknum. Elvar lýsti eigin reynslu úr handboltanum um hversu áhrifaríkt það er að hvetja og hrósa í stað þess að rífa niður og gagnrýna. Það er einmitt eitt af lykilatriðum í samskiptum okkar á milli! Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna og fræðsluna.

  • Halloween 2015

    Það var mikið stuð og hryllingur á Halloween 2015. Nemendur skemmtu sér hið besta í skuggalegu umhverfi og hinum ýmsu búningum. Skoðið fleiri myndir í myndasafninu.


Efst á síðu