Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Fréttir


 • Fjármálafræðsla í 10. bekk, heimsókn frá Fjármálaviti

  Við fengum góða heimsókn í 10. bekk 19. september. Gestir frá Fjármálaviti komu og fræddu nemendur um fjármál og lögðu fyrir þá verkefni. Frábær heimsókn og gagnleg fyrir nemendur! Sjá má myndir á Facebókarsíðu Fjármálavits frá þessari fræðslu og í hinum ýmsu skólum á slóðinni https://www.facebook.com/fjarmalavit/?ref=bookmarks. Við þökkum kærlega fyrir heimsóknina.

   

   

 • Hönnun og endurnýting - val á 1. önn

  Nokkrir nemendur völdu að taka þátt í valgreininni: Hönnun og endurvinnsla. Margra áratuga gamlir bekkir verða pússaðir og málaðir  í áföngum. Nýtt áklæði verður svo sett á í lokin. Það verður skemmtilegt að fylgjast með breytingunum því þessir bekkir eru mikið notaðir á ganginum á 2. hæðinni. 

 • Kvosarkrakkar og Birna fóru í heimsókn á Listasafnið 9. september

  Birna Dís kennari, fór með nemendur í Kvos (8. bekkinga) í heimsókn á Listasafn Íslands. Flott sýning - og fræg verk.

 • Haustferð í Ölver 1. - 2. september

  Það er árleg hefð að fara í haustferð með nemendur. Þá er gist yfir nótt. Að þessu sinni var farið í Ölver undir Ingólfsfjalli. Þessar ferðir eru til þess að nýir nemendur kynnist hinum eldri og hvor öðrum betur. Nemendur nýttu sér góða veðrið til útiveru, boðuðu saman og höfðu skemmtilega kvöldvöku. Ljúf samvera í alla staði. Nemendahópurinn lofar mjög góðu!

 • Brugðið á leik í Hljómskálagarðinum í byrjun skólaárs

  Góða veðrið var nýtt í byrjun skólaársins og Hljómskálagarðurinn á næsta leiti. Alltaf gaman að spóka sig þar. 

 • Skólasetningin, sú 32. í röðinni, 22. ágúst

  Skólasetningin 22. ágúst fór fram í Dómkirkjunni að venju. Það var gaman sjá eldri nemendur og taka á móti nýjum nemendum og fjölskyldum þeirra. Þau Sjana og Alex Jóhannsbörn, fyrrverandi Tjarnskælingar, fluttu tvö frumsamin lög. Annað þeirra fjallaði um að hafa trú á sjáfum sér, það var vel við hæfi. Við þökkum þeim Sjönu og Alex kærlega fyrir fallegan tónlistarflutning.

 • Skemmtileg skólaslit

  Skólaslitin 2016 voru afar ánægjuleg. Nemendur, foreldrar og kennarar ásamt fjölskyldum nemenda fögnuðu skólalokum. Þrír nemendur fluttu tónlistaratriði, þau Ivana, Anna og Kristján, Rosalie Rut flutti glæsilega ræðu fyrir hönd útskriftarnemenda, Anna Sif flutti kveðjuræðu fyrir hönd foreldra og margir fengu viðurkenningar og hrós. Tíundu bekkingar voru auðviðtað útskrifaðir og fengu auk þess sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa skapað mjög góðan bekkjaranda og liðsheild sem smitaði út frá sér til annarra í skólanum. Við erum afar stolt af skólastarfinu sem var mjög viðburðaríkt í vetur. Við óskum útskriftarnemendum innilega til hamingju og óskum þeim gæfu og gengis og hlökkum til endurfunda í haust með hinum. 

 • Metþátttaka á mjög góðum fundi nemenda, foreldra og kennara

  Skólaráðið hélt svo nefndan opinn fund á dögunum. Nemendur í 10. bekk köstuðu boltanum yfir til 9. bekkinga og sögðu frá hvernig þeim tókst að skapa góðan bekkjaranda, skipuleggja árshátíð, gera kennaragrínið og standa að fjáröflun. Foreldrar í 10. bekk miðluðu einnig af sinni reynslu til foreldra 9. bekkinga, en þeir hafa verið ötulir við að styðja við nemendur í bekknum og skólastarfið. Nemendur og foreldrar í 8. bekk fengu það viðfangsefni að koma með hugmyndir að hvernig við getum tengst grenndarsamfélaginu enn frekar. Margar frábærar hugmyndir komu fram sem verða nýttar í skólastarfinu næsta vetur. Ekki má gleyma að 9. bekkingar sáu um hlaðborð en það verkefni var fyrsta skrefið hjá þeim í að safna fyrir útskriftarferð vorið 2017. Við vorum hæst ánægð með hvernig til tókst!

 • Jens í 10. bekk fékk nemendaverðlaun skóla- og frístundráðs Reykjavíkur

  Það var mjög ánægjuleg stund í dag þegar nemendur í 32 skólum í Reykjavík tóku á móti nemendaverðlaunum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Að þessu sinni tilnefndu kennarar Jens Arinbjörn Jónsson til þessara verðlauna. Í rökstuðningi segir meðal annars:

  Jens er skemmtilega leitandi og hefur sýnt miklar framfarir í námi og skólastarfi. Jens er sérlega áhugasamur og jákvæður nemandi. Hann er forvitinn og leitandi og innri áhugi birtist mjög gjarnan í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann er afar vel máli farinn, bæði á íslensku og ensku og kafar gjarnan djúpt í viðfangsefnin. Hann hefur sýnt athyglisverðar framfarir árin sín í Tjarnarskóla, hefur verið virkur þátttakandi og er með góða rökhugsun. Hann hefur einnig gert eftirtektarverð og frumleg rannsóknarverkefni.

  Það var glöð fjölskylda sem mætti með Jens við þetta tækifæri.

  Við óskum Jens innilega til hamingju með þessa viðurkenningu.

 • Vikan með dönskum gestum var mjög skemmtileg

  Síðasta vika var einstaklega skemmtileg hjá okkur þar sem tuttugu og þrír nemendur, þrír kennarar og tveir pabbar heimsóttu okkur í Tjarnarskóla og tóku þátt í fjölbreyttri dagskrá þessa viku. Gestirnir komu frá Roskilde Lille Skole. Þeir brugðu sér í Bláa lónið við komuna til Íslands. Tjarnarskólanemendur og fjölskyldur þeirra voru síðan gestgjafar nemendanna en þeir fullorðnu gistu í skólanum. Gestirnir, Tjarnókrakkar og kennarar fóru í sólarhringsferð í Bláfjöll á skíði, heimsóttu Hellisheiðarvirkjun og fóru í skoðunarferð í Hveragerði. Þar var Hveragarðurinn, jarðskjálftahermir, sundlaugin og Kjörís skoðuð. Safnaheimsóknir voru skipulagðar, leikir, Gróttuferð, ratleikur í miðborginni, pylsur voru grillaðar í Hljómskálagarðinum og margt fleira. Tjarnarskólagestgjafarnir voru afar duglegir að sinna gestunum sínum. Heimsókn af þessu tagi er einstaklega gefandi og skemmtileg þar sem nemendur gefst tækifæri á nýjum kynnum og æfa sig í samskiptum, verða reynslunni ríkari og gefa um leið af sér á báða bóga. Gestirnir og við vorum í skýjunum eftir vikuna. Nú erum við mjög spennt að vita hvort okkur tekst að endurgjalda heimsóknina á næsta skólaári, hver veit? Dönsku dagarnir tókust einstaklega vel.

 • Árshátíðin 2016, sú flottasta til þessa!

  Nemendur og kennarar hittust prúðbúnir á árshátíðina 2016 í Iðnó fyrir skemmstu. Árshátíðin tókst einstaklega vel en að þessu sinni var Hollywoodþema. Góður matur, fallega lagt á borð, frábær skemmtiatriði og tilnefningar af ýmsu tagi flæddu fram eftir kvöldi. Kennaragrínið vakti mikla kátínu enda hafði mikið verið lagt í að gera það sem best úr garði. Kennararnir sýndu líka sitt kennaramyndband, mikið hlegið. Þær Anna Dögg og Rosalie Rut voru framkvæmdastjórar þessarar frábæru hátíðar en flestir í 10. bekk lögðu ótrúlega mikið á sig við að gera kvöldið ógleymanlegt.Margra vikna undirbúningur lá að baki, allt mjög vel skipulagt og smáatriðin klikkuðu ekki : ). Myndirnar segja sitt en um 100 myndir eru á myndakrækjunni, kíkið endilega á. Margrét Hulda tók flestar myndirnar, bestu þakkir MH. Takk krakkar fyrir ógleymanlegt kvöld!!!!! Þið voruð stórkostleg!

 • Gleðilega páska!

  Víð óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska og vonum að allir njóti þess að vera í fríi. Við sendum einnig þeim nemendum sem ætla að fermast hamingjuóskir. Sjáumst hress þriðjudaginn 29. mars.

 • ´80 ball

  Miðvikudaginn fyrir páska var frábært ´80 ball í  skólanum. Nemendur skemmtu sér prýðilega og margir mættu í fötum í stíl við diskótímabilið. 

 • Tjarnarhreystin 2016 (Hungurleikarnir)

  Síðasti dagur fyrir páskafrí var ótrúlega skemmtilegur. Tjarnarhreystin (Hungurleikarnir) undir stjórn Margrétar Huldu tókust afar vel. Nemendur fundu m.a. mótkeppendur á förnum vegi og fóru í armbeygjukeppni og sjómann auk þess sem þeir þurftu að leysa verkefni í ratleik. Næst stigahæsta liðið (Spékopparnir) fékk 430 stig en stigahæsta (Bleiku kindurnar) 549 stig. Liðið í 2. sæti fékk lítil páskaegg að launum en það í 1. sæti stærri páskaegg. Hekla í 8. bekk fékk sérstök einstaklingverðlaun fyrir að leggja sig virkilega vel fram í sínu liði. Allir fengu ostaslaufur og kakó eftir útiveruna og voru síðan kvaddir með lítilli páskaeggjagjöf. 

 • Grikklandsfarar með kynningu

  Stelpurnar sem fóru með kennurunum Þóri og Birnu sögðu nemendum í skólanum frá ferðinni síðasta dag fyrir páskafrí. Þær Anika, Linda, Ivana, Birgitta og Mathilda sögðu frá í máli og myndum. Því miður gat Jóhanna Alba ekki verið með vegna veikinda.

 • Draugaverkefni í íslensku

  Nemendur í Kvos eru að vinna verkefni í íslensku um drauga og draugasögur. Kveikjan að verkefninu er sagan um húsið sem stóð við Suðurgötu 2 í Reykjavík. Helga Júlía, kennari fór ásamt nemendum í vettvangsrannsókn einn morguninn í Suðurgötuna. Þau leituðu að draugalegasta húsinu í nágrenninu sem þau ætla að tengja við verkefnið.

 • Skíðaferðin 2016 tókst einstaklega vel

  Skíðaferð vetrarins var farin í marsmánuði. Hún tókst í alla staði vel. Veðrið var mjög gott og það er alltaf frábært að vera í Breiðabliksskálanum í Bláfjöllum. Þórir og Margrét voru fararstjórar og voru hæst ánægð með nemendahópinn. Auk þess var metþátttaka. Góðir krakkar!

 • Nemendaráð skipulagði Lazer Tag ferð

  Nemendur í nemendaráði hafa verið duglegir að skipuleggja viðburði í vetur. Einn viðburðurinn í mars var ferð í Lazer Tag. Skemmtileg tilbreyting. Það varð þó það óhapp að hún Mathilda okkar datt og braut bein við olnboga. Hún hefur borið sig mjög vel og hefur verið dugleg að bjarga sér þrátt fyrir allt.

 • Viðurkenningar fyrir rannsóknarverkefni

  Áður en við fórum í vetrarfríið okkar var verðlaunaafhending í skólanum; bæði fyrir Bíódaga og Rannsóknarverkefnin. Sjá má fréttir um þá vinnu í fyrri fréttum. Þrír nemendur fengu einkunnina A fyrir rannsóknarverkefnin, þau Jens, sem gerði forrit um fána Evrópulanda. Það var hannað þannig að ef smellt er á fánana má einnig heyra þjóðsöng viðkomandi lands. Rosalie Rut vann verkefni um Óskarsverðlaunin í Hollywood. Hún gerði líkön og texta og myndband ásamt fleiri fylgihlutum um þessi eftirsóttu verðlaun í kvikmyndaheiminum. Vigdís gerði verkefni um bardagaíþróttina MMA. Hún lýsti henni í myndbandi og hefti með textum og myndum og gerði einnig líkan af bardagahring. Til hamingju með glæsileg verkefni; Jens, Rosalie og Vigdís!

 • Læknanemar frá Ástráði fræddu nemendur

  Okkur gafst tækifæri á dögnunum að fá fyrirlestur læknaema sem starfa undir heitinu Ástráður. Í fræðslunni er stiklað á stóru um samskipti kynjanna, sambönd, traust, virðingu, það að læra að þekkja eigin líkama, kynferðislega misnotkun, getnaðarvarnir, kynsjúkdómavarnir og kynheilbrigði almennt. Krakkarnir eru hvattir til þess að spyrja sem mest og taka þátt í umræðum og leikjum. Við þökkum þeim Jónasi Bjarti og Ingu Láru kærlega fyrir góða heimsókn.


Efst á síðu