Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Fréttir


 • Vikan með dönskum gestum var mjög skemmtileg

  Síðasta vika var einstaklega skemmtileg hjá okkur þar sem tuttugu og þrír nemendur, þrír kennarar og tveir pabbar heimsóttu okkur í Tjarnarskóla og tóku þátt í fjölbreyttri dagskrá þessa viku. Gestirnir komu frá Roskilde Lille Skole. Þeir brugðu sér í Bláa lónið við komuna til Íslands. Tjarnarskólanemendur og fjölskyldur þeirra voru síðan gestgjafar nemendanna en þeir fullorðnu gistu í skólanum. Gestirnir, Tjarnókrakkar og kennarar fóru í sólarhringsferð í Bláfjöll á skíði, heimsóttu Hellisheiðarvirkjun og fóru í skoðunarferð í Hveragerði. Þar var Hveragarðurinn, jarðskjálftahermir, sundlaugin og Kjörís skoðuð. Safnaheimsóknir voru skipulagðar, leikir, Gróttuferð, ratleikur í miðborginni, pylsur voru grillaðar í Hljómskálagarðinum og margt fleira. Tjarnarskólagestgjafarnir voru afar duglegir að sinna gestunum sínum. Heimsókn af þessu tagi er einstaklega gefandi og skemmtileg þar sem nemendur gefst tækifæri á nýjum kynnum og æfa sig í samskiptum, verða reynslunni ríkari og gefa um leið af sér á báða bóga. Gestirnir og við vorum í skýjunum eftir vikuna. Nú erum við mjög spennt að vita hvort okkur tekst að endurgjalda heimsóknina á næsta skólaári, hver veit? Dönsku dagarnir tókust einstaklega vel.

 • Árshátíðin 2016, sú flottasta til þessa!

  Nemendur og kennarar hittust prúðbúnir á árshátíðina 2016 í Iðnó fyrir skemmstu. Árshátíðin tókst einstaklega vel en að þessu sinni var Hollywoodþema. Góður matur, fallega lagt á borð, frábær skemmtiatriði og tilnefningar af ýmsu tagi flæddu fram eftir kvöldi. Kennaragrínið vakti mikla kátínu enda hafði mikið verið lagt í að gera það sem best úr garði. Kennararnir sýndu líka sitt kennaramyndband, mikið hlegið. Þær Anna Dögg og Rosalie Rut voru framkvæmdastjórar þessarar frábæru hátíðar en flestir í 10. bekk lögðu ótrúlega mikið á sig við að gera kvöldið ógleymanlegt.Margra vikna undirbúningur lá að baki, allt mjög vel skipulagt og smáatriðin klikkuðu ekki : ). Myndirnar segja sitt en um 100 myndir eru á myndakrækjunni, kíkið endilega á. Margrét Hulda tók flestar myndirnar, bestu þakkir MH. Takk krakkar fyrir ógleymanlegt kvöld!!!!! Þið voruð stórkostleg!

 • Gleðilega páska!

  Víð óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska og vonum að allir njóti þess að vera í fríi. Við sendum einnig þeim nemendum sem ætla að fermast hamingjuóskir. Sjáumst hress þriðjudaginn 29. mars.

 • ´80 ball

  Miðvikudaginn fyrir páska var frábært ´80 ball í  skólanum. Nemendur skemmtu sér prýðilega og margir mættu í fötum í stíl við diskótímabilið. 

 • Tjarnarhreystin 2016 (Hungurleikarnir)

  Síðasti dagur fyrir páskafrí var ótrúlega skemmtilegur. Tjarnarhreystin (Hungurleikarnir) undir stjórn Margrétar Huldu tókust afar vel. Nemendur fundu m.a. mótkeppendur á förnum vegi og fóru í armbeygjukeppni og sjómann auk þess sem þeir þurftu að leysa verkefni í ratleik. Næst stigahæsta liðið (Spékopparnir) fékk 430 stig en stigahæsta (Bleiku kindurnar) 549 stig. Liðið í 2. sæti fékk lítil páskaegg að launum en það í 1. sæti stærri páskaegg. Hekla í 8. bekk fékk sérstök einstaklingverðlaun fyrir að leggja sig virkilega vel fram í sínu liði. Allir fengu ostaslaufur og kakó eftir útiveruna og voru síðan kvaddir með lítilli páskaeggjagjöf. 

 • Grikklandsfarar með kynningu

  Stelpurnar sem fóru með kennurunum Þóri og Birnu sögðu nemendum í skólanum frá ferðinni síðasta dag fyrir páskafrí. Þær Anika, Linda, Ivana, Birgitta og Mathilda sögðu frá í máli og myndum. Því miður gat Jóhanna Alba ekki verið með vegna veikinda.

 • Draugaverkefni í íslensku

  Nemendur í Kvos eru að vinna verkefni í íslensku um drauga og draugasögur. Kveikjan að verkefninu er sagan um húsið sem stóð við Suðurgötu 2 í Reykjavík. Helga Júlía, kennari fór ásamt nemendum í vettvangsrannsókn einn morguninn í Suðurgötuna. Þau leituðu að draugalegasta húsinu í nágrenninu sem þau ætla að tengja við verkefnið.

 • Skíðaferðin 2016 tókst einstaklega vel

  Skíðaferð vetrarins var farin í marsmánuði. Hún tókst í alla staði vel. Veðrið var mjög gott og það er alltaf frábært að vera í Breiðabliksskálanum í Bláfjöllum. Þórir og Margrét voru fararstjórar og voru hæst ánægð með nemendahópinn. Auk þess var metþátttaka. Góðir krakkar!

 • Nemendaráð skipulagði Lazer Tag ferð

  Nemendur í nemendaráði hafa verið duglegir að skipuleggja viðburði í vetur. Einn viðburðurinn í mars var ferð í Lazer Tag. Skemmtileg tilbreyting. Það varð þó það óhapp að hún Mathilda okkar datt og braut bein við olnboga. Hún hefur borið sig mjög vel og hefur verið dugleg að bjarga sér þrátt fyrir allt.

 • Viðurkenningar fyrir rannsóknarverkefni

  Áður en við fórum í vetrarfríið okkar var verðlaunaafhending í skólanum; bæði fyrir Bíódaga og Rannsóknarverkefnin. Sjá má fréttir um þá vinnu í fyrri fréttum. Þrír nemendur fengu einkunnina A fyrir rannsóknarverkefnin, þau Jens, sem gerði forrit um fána Evrópulanda. Það var hannað þannig að ef smellt er á fánana má einnig heyra þjóðsöng viðkomandi lands. Rosalie Rut vann verkefni um Óskarsverðlaunin í Hollywood. Hún gerði líkön og texta og myndband ásamt fleiri fylgihlutum um þessi eftirsóttu verðlaun í kvikmyndaheiminum. Vigdís gerði verkefni um bardagaíþróttina MMA. Hún lýsti henni í myndbandi og hefti með textum og myndum og gerði einnig líkan af bardagahring. Til hamingju með glæsileg verkefni; Jens, Rosalie og Vigdís!

 • Læknanemar frá Ástráði fræddu nemendur

  Okkur gafst tækifæri á dögnunum að fá fyrirlestur læknaema sem starfa undir heitinu Ástráður. Í fræðslunni er stiklað á stóru um samskipti kynjanna, sambönd, traust, virðingu, það að læra að þekkja eigin líkama, kynferðislega misnotkun, getnaðarvarnir, kynsjúkdómavarnir og kynheilbrigði almennt. Krakkarnir eru hvattir til þess að spyrja sem mest og taka þátt í umræðum og leikjum. Við þökkum þeim Jónasi Bjarti og Ingu Láru kærlega fyrir góða heimsókn.

 • Tíundubekkingar heimsækja marga framhaldsskóla

  Á hverjum vetri fara nemendur í 10. bekk í margar framhaldsskólaheimsóknir (oftas 10-13). Þessar ferðir eru skipulagðir í tengslum við námstímana ,,Menntun og störf". Eftir jól hafa nokkrir skólar verið heimsóttir og fleiri heimsóknir verða farnar á næstunni. Myndir úr Borgó, FB, MR og FMos fylgja hér. Helga Júlía er alltaf mjög stolt af unglingunum okkar í þessum heimsóknum, þeir eru duglegir að spyrja og eru reynslunni ríkari þegar kemur að því að velja skóla í vor.

 • Foreldrar skipulögðu ,,sleepover" ferð

  Gufunesferð foreldrafélagsins tókst með miklum ágætum. Þetta er í annað sinn sem foreldrafélagið skipuleggur ferð af þessu tagi fyrir Tjarnarskólaunglingana, frábært framtak! Allir hittust upp úr klukkan 18.00 á föstudegi. Samverunni lauk síðan með sameiginlegum hádegis,,brunch" daginn eftir. Allir glaðir! 

 • Bíódagar í febrúar

  Nemendur unnu í 5 hópum við að búa til handrit, myndbönd og kynningarefni sem voru sýnd í lok Bíódaganna við góðar undirtektir. M.a. mátti sjá frábæra ,,trailera" eða veggspjöld eða annað kynningarefni. Hlynur sló í gegn í ,,Landanum" - óborgnalegu atriði sem var tekið við Tjörnina. Tíundu bekkingar voru mjög leyndardómsfullir þessa daga við að búa til kennaragrínið sem verður sýnt á árshátíðinni í apríl. Föstudaginn fyrir vetrarfrí var síðan verðlaunaafhending fyrir bestu hópvinnuna á kvikmyndadögum. Tveir hópar fengu einkunnina A, sem er harla gott, því það þurfti að uppfylla mörg skilyrði fyrir þeirri einkunn. Í öðrum hópnum voru: Brynja, Filippía, Hlynur og Gunnar, en í hinum þau Rebekka, Birta, Arndís, Hekla og Fylkir. Þau fengu bíómiða, popp og kók í verðlaun. 

  Takk, Tjarnókrakkar fyrir frábæra bíódaga! 

 • Hópur nemenda og kennara í Grikklandi þessa viku

  Birna og Þórir, kennarar, fóru með 6 nemendur, þær Ivönu, Lindu, Aniku, Mathildi, Birgittu og Jóhönnu og til Grikklands á sunnudaginn. Þau koma heim á föstudaginn. Þessi heimsókn er liður í Evrópuverkefni sem við erum að taka þátt í ásamt nemendum og kennurum í Grikklandi, Spáni, Slóveníu og Ítalíu. Við fengum einmitt rúmlega 30 gesti til okkar frá þessum löndum í september. Við höfum fengið myndir úr ferðinni og látum nokkrar fylgja hér. Við hlökkum til að fá ferðasöguna og sjá fleiri myndir. 

 • Ungbarnadagar 2016

  Tíundubekkingar tóku þátt í verkefninu ,,Hugsað um barn" í lok janúar. Þetta er í sjöunda sinn sem nemendum býðst að taka þátt í þessu verkefni. Undirbúningur var í höndum Ólafs Grétars Gunnarssonar, hjá ÓB-ráðgjöf, sem er samstarfsaðili okkar á Ungbarnadögum. Ólafur hélt fyrirlestra, bæði fyrir foreldra 10. bekkinga og nemendur áður en verkefnið hófst. Nemendur sáu um ,,ungbarnið" í tvo sólarhringa og fengu að kynnast því hvernig það er að annast ungbarn, hugga það, skipta á því, gefa að drekka og láta ropa. Allir stóðu sig með mikilli prýði og voru reynslunni ríkari að loknum tveimur sólarhringum með barnið, bæði í skólanum og heima.      Meira...

 • Flott rannsóknarverkefni komu í hús

  Mánudaginn 25. janúar var skiladagur rannsóknarverkefna. Það var mjög gaman að ganga um og skoða verkefnin sem voru af fjölbreyttu tagi. Hér má nefna nashyrninga í útrýmingarhættu, nýtt forrit þar sem skoða má þjóðfána Evrópulanda og hlusta á þjóðsöng hvers og eins, verkefni um bardagaíþróttina mmn, kynningu á Óskarsverðlaunahátíðinni, sundverkefni, umfjöllun um tónlistarmennina David Bowie og Justin Bieber og margt, margt fleira. Hér má sjá nokkrar myndir en miklu fleiri eru á myndasíðunni. 

 • Fræðsla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði

  Tíundu bekkingar fengu góðan gest á dögunum; Daða Rúnar Pétursson, frá VR, sem fræddi nemendur um hvaða réttindi og skyldur þeir hafa þegar þeir hafa ráðið sig í vinnu. Hann sagði frá á lifandi hátt og nemendur urðu margs vísari. Fín heimsókn.

 • Spilakvöld í janúar

  Nemendaráðið skipulagði skemmtilegt spilakvöld í janúar. Nemendur spiluðu Wiie, Play Station og Just Dance (stuð og stemning). Alltaf gaman að hittast. 

 • Dásamlegir bókaþemadagar

  Þemadagarnir í desember tókust með miklum ágætum. Nemendur brugðu sér í rithöfundagírinn og sömdu ótrúlega fínar barnabækur. Hver hópur samdi bók og myndskreytti. Hluti verkefnisins var að fara með bókina á leikskóla og lesa fyrir börnin þar. Þær heimsóknir voru mjög ánægjulegar. Þessa daga lögðu nemendur alla rafræna miðla til hliðar; tölvur, i-pada og síma og unnu upp á ,,gamla mátann". Mjög notaleg stemning var í húsinu. Þegar verkefnin voru metin var mjög mjótt á mununum hvaða hópar skoruðu hæst en þær Filippía, Anna Stella og Rebekka voru í þeim hópi og fengu verðlaunabókina Arftakann sem viðurkenningu. Sjá má myndir af bókinni þeirra en það eru fleiri myndir á myndakrækjunni. Sjón er sögu ríkari - við erum mjög ánægð með þetta verkefni hjá öllum!


Efst á síðu