Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Frétt

Vikan með dönskum gestum var mjög skemmtileg

Síðasta vika var einstaklega skemmtileg hjá okkur þar sem tuttugu og þrír nemendur, þrír kennarar og tveir pabbar heimsóttu okkur í Tjarnarskóla og tóku þátt í fjölbreyttri dagskrá þessa viku. Gestirnir komu frá Roskilde Lille Skole. Þeir brugðu sér í Bláa lónið við komuna til Íslands. Tjarnarskólanemendur og fjölskyldur þeirra voru síðan gestgjafar nemendanna en þeir fullorðnu gistu í skólanum. Gestirnir, Tjarnókrakkar og kennarar fóru í sólarhringsferð í Bláfjöll á skíði, heimsóttu Hellisheiðarvirkjun og fóru í skoðunarferð í Hveragerði. Þar var Hveragarðurinn, jarðskjálftahermir, sundlaugin og Kjörís skoðuð. Safnaheimsóknir voru skipulagðar, leikir, Gróttuferð, ratleikur í miðborginni, pylsur voru grillaðar í Hljómskálagarðinum og margt fleira. Tjarnarskólagestgjafarnir voru afar duglegir að sinna gestunum sínum. Heimsókn af þessu tagi er einstaklega gefandi og skemmtileg þar sem nemendur gefst tækifæri á nýjum kynnum og æfa sig í samskiptum, verða reynslunni ríkari og gefa um leið af sér á báða bóga. Gestirnir og við vorum í skýjunum eftir vikuna. Nú erum við mjög spennt að vita hvort okkur tekst að endurgjalda heimsóknina á næsta skólaári, hver veit? Dönsku dagarnir tókust einstaklega vel.


Efst á síðu