Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Fréttir


 • Góður fyrirlestur hjá Hlúms-íþróttahópnum í dag

  Í dag fengum við frjálsíþróttakonuna Fríðu Rún Þórðardóttur í heimsókn en Fríða Rún er næringarfræðingur, næringarráðgjafi og íþróttanæringarfræðingur. Hún ræddi við nemendur um mikilvægi hreyfingar og réttrar næringar. Áhugaverður fyrirlestur í alla staði. Fríða er afrekskona, var valin frjálsíþróttakona ársins, 35 ára og eldri árið 2013 og hefur mörgu að miðla.  Við þökkum henni kærlega fyrir komuna. 

 • Viðurkenning fyrir þemadagana

  Föstudaginn fyrir páska fékk stigahæsti hópurinn á þemadögum viðurkenningu. Það var vel við hæfi að fá páskaegg að launum, svona rétt fyrir páska. 

 • Viðurkenningar fyrir glæsileg rannsóknarverkefni

  Föstudaginn fyrir páska voru veitt verðlaun fyrir glæsileg rannsóknarverkefni sem nemendur skiluðu í síðasta mánuði. Á myndina vantar Kristínu Diljá og Pétur sem voru ekki í skólanum þennan dag. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn.

 • Stigahæsta liðið í Tjarnarhreystinni

  Þessir kátu krakkar náðu flestum stigum í Tjarnarhreystinni. Það má sjá fleiri myndir á myndakrækjunni.

 • Tjarnarhreystin fyrir páska

  Hefðbundin Tjarnarhreysti átti sér stað föstudaginn fyrir páska. Nemendur tóku þátt í dagskrá í Kramhúsinu og íþróttahúsinu. Nemendum var skipt í lið sem kepptu innbyrðis í góðri stemningu. Í lokin fékk stigahæsta liðið smá viðurkenningu en allir voru leystir út með málsháttarpáskaeggi. Við sama tækifæri voru veitt verðlaun fyrir þemadagana og flott rannsóknarverkefni. Það eru skemmtilegar myndir á myndakrækjunni, kíkið endilega á þær.

 • Frábær árshátíð 2014

  Árshátíð Tjarnarskóla 2014 tókst með miklum ágætum. Nemendur mættu prúðbúnir í Iðnó. Salurinn var fallega skreyttur og þriggja rétta máltíðin bragðaðist vel. Mörg skemmtiatriði voru á dagskrá; Hákon Darri spilaði á harmonikku, Móeiður, Sjana, Gunnar og Vigdís sungu og Samar spilaði á fiðlu. Kennaragrínið var mjög skemmtilegt, bæði nemendamyndbandið og kennaranna. Margir happrættisvinningar voru dregnir og svo var hápunkturinn þegar tilkynnt var hvaða nemendur höfðu verið tilnefndir fyrir ýmsa eiginleika.  Nefna má ,,bjartasta vonin, hlátur, hár og ,,fashionkilla". Herra og ungfrú Kvos, Lækur og Smiðja tóku sig vel út. Stemmningin var ótrúlega góð og það má svo sannarlega segja að árshátíðin hafi verið öllum til mikils sóma og árshátíðarnefndin stóð sig vel. Dagskránni lauk síðan með stuði og stemmningu á dansgólfinu. Það má sjá fullt af myndum á myndasíðunni.

 • Árshátíðardagur

  Það hefur verið mikil stemning í skólanum í dag, 3. apríl. Undirbúningur árshátíðarinnar er á lokasprettinum. Allir bekkir voru með einhverja tilbreytingu í tilefni dagsins; 10. bekkingar settu upp glæsilegt hlaðborð, 9. bekkingar fengu Þóri, umsjónarkennara í lið með sér. Hann mætti með forláta pönnukökupönnu - og allir fengu að gæða sér á ilmandi pönnukökum (með Nutella!). Kvosarkrakka ákváðu að hafa kósýstund og horfa á mynd og gæða sér á góðgæti sem þeir höfðu með að heiman. 

 • Gaman á skíðum

  Það er ótrúlega gaman að leggja frá sér hefðbundin skólaverkefni og skella sér á skíði. Tjarnarskólanemendur brugðu sér í skemmtilega skíðaferð í síðustu viku, frá fimmtudegi til föstudags. Allir nutu þess að renna sér og vera saman. Kvöldvakan tókst mjög vel og allir komu glaðir til baka. Það er skemmtilegt á skíðum! Það eru fleiri myndir í ,,Myndir".

 • Ánæjulegur öskudagur

  Sú hefð hefur skapast að við höfum öskudaginn með öskudagssniði. Nemendur og kennarar mæta gjarnan í búningum, við breytum viðfangsefnum, nemendur fá að skreppa í leiðangur um miðborgina og fleira er sér til gamans gert. Þær Alda og Birta í 10. bekk steiktu stóra stafla af vöflum og allir gæddu sér á kræsingunum í hádeginu. Um að gera að halda í skemmtilegar hefðir. Það eru fleiri myndir á myndasíðunni okkar.

 • Leiklistarnemar í FG með kynningu

  Fyrrverandi Tjarnskælingur, hún Unnur okkar Agnes, er nemandi á leiklistarbraut í FG. Hún kom í heimsókn á öskudaginn ásamt félögum sínum að kynna Beetlejuice sem leiklistarnemar hafa verið að æfa. Tjarnskælingum bauðst að kaupa miða á sýningu hjá þeim og voru mjög spenntir.

 • Lækjarnemendur fóru á Listasafn Reykjavíkur

  Vera, myndlistarkennari, er dugleg að fara með nemendur á myndlistarsýningar. Síðast fóru Lækjarnemendur að skoða sýningu í Listasafni Reykjavíkur. Sýningin nefnist Hljómfall litar og línu og leiðir gesti inn í heim litar og tónlistar og samspils þar á milli.

 • Heimsókn í Sjóminjasafnið og varðskipið Þór

  Mánudaginn 10. mars fóru nemendur í Kvos og Læk í heimsókn í Sjóminjasafnið og fengu einnig að skoða varðskipið Þór. Sumir prófuðu að setjast í skipherrastólinn í brúnni. Það bar margt fyrir augu og nemendur voru áhugasamir að skoða safnið. Það má sjá fleiri myndir á myndasíðunni.

 • 1.Mar 1970
  Áhugaverð framhaldsskólakynning í Kórnum

  Nemendum í 10. bekk gafst mjög gott tækifæri til að kynnast fjölbreytni framhaldsskólanna 26. febrúar síðast liðinn. Sýningin var í Kórnum í Kópavogi. Vel var staðið að sýningunni og allri skipulagningu, nemendur sóttir í skólann og þeim skilað aftur. Ásdís, fyrrverandi Tjarnskælingur bauð Kristínu Diljá upp á hárgreiðslu en Ásdís er nemi í þeirri iðn.

 • Tíundubekkingar í keilu

  Nemendur í 10.bekk brugðu sér í keilu á dögunum. Um var að ræða síðbúin vikuverðlaun fyrir þátttöku í Raunveruleiknum, en þessir sömu nemendur sigruðu í þeirri keppni í nóvember og fengu afar vegleg verðlaun. Forráðamönnum Raunveruleiksins eru færðar þakkir fyrir þetta ágæta keilutækifæri. Það eru fleiri keilumyndir á myndasíðu.

 • ,,Opið hús" í febrúar

  Í lok febrúar skipulagði nemendaráðið Opið hús. Snyrtifræðingurinn Guðrún Halla kom í heimsókn og fræddi krakkana um húðsnyrtingu. Sumir duttu í lukkupottinn og unnu sér inn snyrtivöruglaðning. Stelpunum fannst mjög gaman að kynnast því hverning hægt er að skeyta neglurnar eins og sjá má á myndunum. Svo var spilað og kíkt á myndband.  Það eru fleiri myndir á myndasíðunni.

 • Unglingurinn í Gaflaraleikhúsinu

  Það var mikið hlegið á leikritinu Unglingurinn í Gaflaraleikhúsinu fyrir skemmstu.. Þeir Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson fóru á kostum. Leikritið dregur upp bráðskemmtilega mynd af lífi unglinga og hefur ýmsar tilvísanir, bæði kátbroslegar en einnig með alvarlegum undirtón. Þær Anna Dögg og Sara voru dregnar upp á svið og látnar taka þátt í einu atriðinu. Þær stóðu sig mjög vel við mikla kátínu skólafélaganna. Fín skemmtun sem foreldrafélag Tjarnarskóla stóð fyrir!

 • Myndmennt í þrívídd

  Nemendur í Kvos voru í skemmtilegum myndmenntatímum í dag. Efnið sem unnið var með var trépinnar og rófuteningar. Útkoman var stórskemmtileg. Það má sjá fleiri myndir á myndasíðunni.

 • Valið á föstudögum, góð tilbreyting

  Á föstudögum lýkur skólastarfinu með valtímum. Á 2. önninni völdu nemendur jóga, kvikmyndir, sauma, prjón og hekl, leikjagerð (role play) og tálgun. Á 3. og síðustu önninni, sem hefst í næstu viku verður fleira á boðstólum, nemendur velja þá að nýju. Á myndasíðunni má sjá fleiri myndir úr þessum tímum.

 • Tíundubekkingar æfðu foreldrahlutverkið

  Nemendur í 10. bekk tóku þátt í mjög krefjandi verkefni í síðustu viku. Þeir voru með sýndarbarn frá miðvikudegi til föstudags og sinntu barninu allan sólarhringinn. Það var ný lífsreynsla að þurfa í tíma og ótíma að gefa pela, skipta á bleyju, hugga og rugga samhliða því að vera í skólanum, tónlistarnámi og íþróttaiðkun.  Allir stóðu sig með mikilli prýði. Á föstudeginum var þreytan þó farin að segja til sín. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Ólaf Grétar Gunnarsson. Nemendur fá viðurkenningarskjal fyrir þátttöku í þessu námskeiði og auðvitað mikilvæga reynslu í farteskið.

 • Krakkarnir í Kvos fóru í Listasafn Reykjavíkur

  Nemendur í Kvos fóru með Veru, myndmenntakennara, á sýningu í Listasafni Reykjavíkur. Þar stendur yfir sýning á verki Katrínar Sigurðardóttur, Undirstöðu, sem var framlag Íslendinga til Feneyjartvíæringsins 2013. Skemmtilegt tækifæri!


Efst á síðu