Tjarnarskóli - lítill skóli með stórt hjarta

Fréttir


 • Foreldraráðið fékk góðan fyrirlesara um hættur á netinu

  Við fengum góðan gest, hann Hermann Jónsson, til þess að fræða foreldra um hætturnar á netinu þann 22. október síðast liðinn. Það er afar mikilvægt fyrir nemendur, foreldra og kennara að fræðast um hvað á sér stað í netheimum. Mörgum var brugðið. Umræðan er mjög mikilvæg. Við þökkum Hermanni kærlega fyrir heimsóknina og fræðsluna.

 • Upplestur úr Rökkurhæðum

  Höfundar Rökkurhæða; þær Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir, komu til okkar og lásu upp úr nýjustu Rökkurhæðabókinni, Vökumanninum. Við þökkum þeim kærlega fyrir góða heimsókn. Þær gerðu enn betur og skildu eitt eintak eftir handa nemendum í skólanum. Bestu þakkir!

 • Skyndihjálparnámskeið

  Fyrir nokkru fengum við tvo læknanema, þá Gísla Þór Axelsson og Gústav Arnar Davíðsson í heimsókn. Þeir fræddu nemendur um skyndihjálp. Í lokin fengu allir að prófa hjartahnoð. Við þökkum þeim Gísla og Gústav kærlega fyrir komuna en það var Rauði krossinn sem stóð fyrir fræðslunni. Gott framtak!

 • 1.Nóv 1970
  Foreldramorgnar með umsjónarkennara

  Sú nýbreytni var tekin upp á þessu skólaári að umsjónarkennarar hafa skipulagt foreldraspjall á mánudagsmorgni (þegar nemendur eru í íþróttum). Þá hefur gefist tækifæri til að spjalla og skiptast á skoðunum og upplýsingum. Það hefur verið ánægja með þetta, bæði hjá foreldrum og umsjónarkennurum. Nú þegar hafa verið foreldramorgna í öllum bekkjum einu sinni.

 • Unnið með leir

  Myndlistarnemendur unnu skemmtilegt verkefni í leir. Hver og einn fékk leirkúlur sem tóku breytingum í nokkrum þrepum. Það eru fleiri myndir á myndakrækjunni.

 • Leiklistarhópurinn vann útiverkefni

  Leiklistarhópurinn, undir stjórn Öddu Rutar, hefur verið í ýmsum verkefnum. Eitt þeirra fór fram utan dyra fyrir nokkru.

 • Flottar myndir í myndlistinni

  Myndlistarnemendur hafa unnið mörg flott verkefni. Eitt verkefnið var að vinna með ljósið í myrkrinu. Hægt er að skoða fleiri myndir á myndakrækjunni.

 • Haustferð í Gróttu

  Dagana 11. og 12. september fóru nemendur og kennarar í haustferð út í Gróttu og dvöldu þar í sólarhring. Það er ævintýralegt að dvelja í Gróttu þar sem sjórinn umlykur ,,eyjuna" hluta dvalartímans. Hópurinn kom glaður til baka eftir frábæra ferð. Það var grillað, farið í leiki, haldin kvöldvaka, spilað spjallað og svipast um í þessari náttúruperlu. Nýir og eldri nemendur kynntust betur og skemmtu sér saman. Við birtum fleiri myndir fljótlega.

 • Kynningar á valgreinum

  Í byrjun skólastarfsins fengu nemendur kynningar á hluta þeirra valgreina sem þeim stóð til boða á 1. önninni. Um var að ræða kynningu á skák, Lego-forritun, leiklist, skólablaði og spilum. Þessar kynningar tókust ágætlega og í kjölfarið völdu nemendur sér það sem þeim leist best á. Við fengum m.a. þau Stefán frá Skákakademíunni og Ástbjörgu Rut Jónsdóttur, leikkonu í heimsókn í tengslum við þessar kynningar sem fóru fram í þremur lotum á jafn mörgum dögum.

 • Ágústmorgunn í Hljómskálagarðinum

  Fyrsta skóladaginn fóru nemendur og kennarar í Hljómskálagarðinn í veðurblíðunni. Nýir og eldri nemendur fóru í ýmsa leiki til þess að hrista saman hópinn.

 • Skólasetning, sú 30. í röðinni

  Tjarnarskóli var settur í 30. sinn föstudaginn 22. ágúst í Dómkirkjunni. Það var ánægjulegt að hitta nýja og eldri nemendur, foreldra, afa, ömmur, systkini og aðra góða gesti. Þeir Ari Bragi Kárason og Karl Olgeirsson djössuðu skemmtilega inn skólaárið þegar þeir léku fyrir okkur á trompet og flygilinn góða. Það var svo sannarlega ljúf stemning. Við hlökkum til skólaársins framundan sem er jafnframt afmælisár skólans. María Solveig Héðinsdóttir, annar stofnenda skólans sem lét af störfum fyrir allmörgum árum, færði okkur fallegan rósavönd, skreyttan medalíu sem á stendur: ,,Tjarnarskóli, litli skólinn með stóra hjartað, settur í 30. sinn.

 • Falleg skólaslit í Dómkirkjunni 6. júní

  Skólaslitin fóru fram i Dómkirkjunni þann 6. júní síðast liðinn. Fjögur tónlistaratriði voru á dagskrá: Karen Eik í 10. bekk lék á víólu við undirleik Söruh Buckley, Sjana 10. bekkingur og Alex bróðir hennar, sem er fyrrum Tjarnskælingur, fluttu lag eftir Alex og texta eftir Sjönu, Alex lék á gítar en Sjana söng. Samar og Pétur léku einleik á fiðlu. Þetta var fallegur tónlistarflutningur sem setti afar fallegan svip á athöfnina. Auk ræðu Margrétar skólastjóra flutti Guðbrandur Óli kveðjuorð fyrir hönd útskriftarnemenda, Sigríður Johnsen, amma Ísaks, útskriftarnemenda,  færði skólanum þakkir og flutti kveðjuorð til útskriftarnemenda. Elín, mamma Sjönu og Alexar þakkaði fallega fyrir árin sem unglingarnir hennar hafa verið í Tjarnarskóla. Síðan fór fram verðlaunaafhending og síðan útskrift 10. bekkinga.

  Skólaslit eru ávallt mjög ánægjulegur viðburður. Eftir skólaslitin héldu tíundu bekkingar og fjölskyldur þeirra út í skóla þar sem var skemmtileg kveðjustund. Þær Andrea, Karen Eik, Móeiður, Samar, Sjana og Sonja höfðu skreytt stofur og ganga, nemendur komu með góðgæti á hlaðborðið og Karen kennari hafði sett saman skemmtilega myndasýningu frá skólaárum nemenda.  Karen kennari fékk góðan grip; nýtt ræðupúlt, sem afi Helgu Rakelar og Vigdísar hafði smíðað. (Sjá fleiri myndir á myndasíðu)

  Þetta var sannkallaður gleðidagur.  Síðan héldu nemendur út í sumarið og lífið fyrir utan dyrnar.

 • Samar fékk nemendaverðlaun Skóla- og frístundasviðs

  Á hverju skólaári tilnefna grunnskólar einn nemanda úr sínum skóla til þess að taka við nemendaverðlaunum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Markmið verðlaunanna er að hvetja nemendur til að leggja sig enn betur fram við að skara fram úr í námi, í félagsstarfi eða skapandi starfi. Við tilnefndum Samar með þeim orðum: Samar er góð fyrirmynd í skólanum og er duglegur námsmaður. Hún sýnir virkan áhuga og hefur jákvæð áhrif á aðra. Hún er skapandi og leggur sig fram í að ná árangri í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún hefur sýnt styrk í hópvinnu, sýnt frumkvæði og forystuhæfileika.

  Allir nemendur sem fengu tilnefningu fengu viðurkenningarskjal og bókargjöf. Við óskum Samar og fjölskyldu hennar innilega til hamingju. Hún er vel að þessari viðurkenningu komin.

 • Grillað og snú-snúað

  Það er hefð fyrir því að grilla pylsur og vera saman utan dyra þegar nálgast skólalok. Við gæddum okkur á ,,þjóðarrétti" Íslendinga á mánudaginn. Nú fækkar skóladögunum og prófin tekin við.

 • Tíundi bekkur á Caruso

  Tíundu bekkingar gerðu sér glaðan dag á fimmtudaginn og fóru með Karen, umsjónarkennara, á Caruso.  Þetta varð mjög skemmtileg samvera þar sem allir nutu þess að vera saman. Nú fer að styttast í skólaslit og kveðjustund og því mikilvægt að eiga sem flestar góðar minningar áður en haldir verður út í sumarið og framtíðina. 

 • Leonora og uglan

  Hún Leonóra okkar var að ljúka við fallega uglu í textílmenntinni. Hún ætlar að gleðja litla frænku sína sem er veik með því að gefa henni ugluna sem er falleg og krúttleg. 

 • Hermann, Selma og Andri með fyrirlestur

  Þau Hermann, Selma og Andri héldu góðan fyrirlestur 19. maí síðast liðinn. Þau eru í hópnum Erindi sem hefur vakið athygli fyrir umfjöllun um spennandi heim netsins; neikvæða og jákvæða notkun netmiðla meðal barna og unglinga. Þau kynntu fyrir okkur ýmsar vefsíður og forrit sem unglingar sækja og nota mest í dag en átta sig ekki alltaf á þeim hættum sem leynast þar. Í kjölfarið voru umræður í litlum hópum sem skiluðu umræðupunktum og tillögum sem verða hafðar til hliðsjónar við skipulagningu skólastarfsins næsta vetur. Við þökkum þremenningunum kærlega fyrir góða heimsókn.

 • Biophilia; kristallagerð, myndbönd og fleira skemmilegt

  Nemendur í Kvos tóku þátt í Biophilia-verkefninu fyrir skemmstu. Kristallagerð, myndbönd, tónlist og fleira skemmtilegt var á dagskrá nemenda meðan á verkefninu stóð. Fleiri myndir á myndakrækju.

 • Dansað í Iðnó á Barnamenningarhátíð

  Nemendur skólans brugðu sér í Lunch Beat í Iðnó á vegum barnamenningarhátíðar. Skemmtileg uppákoma.

 • Tjarnskælingar tóku þátt í Friðarhlaupinu 2014

  Á mánudaginn fór fram hið árlega friðarhlaup. Nemendur í Tjarnarskóla og Vesturbæjarskóla tóku þátt í stuttri athöfn við friðartréð sem stendur skammt frá Tjarnarbakkanum. Erlendir gestir voru með í hópnum sem hjóp með kyndil, tákn friðar, í kringum Tjörnina. Nemendur undirbjuggu sig með því að teikna friðartákn og hugleiða mikilvægi friðar á jörðu. Það eru fleiri myndir á myndakrækjunni. 


Efst á síðu